132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[18:04]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Umræða um þingsályktunartillögu um skipan nefndar til að meta kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins hefur aðeins dregist á langinn og orðið meiri en menn gerðu kannski ráð fyrir í upphafi. Í fyrri ræðu minni forðaðist ég eiginlega að fara í efnislegar umræður um færeysku leiðina eða þá íslensku og ég held ég reyni að einhverju leyti að gera það líka núna í seinni ræðu minni.

Það kom mjög vel fram hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni hvernig þróun þorskaflans hefur verið undanfarin ár. Hv. þingmaður fór með tölur 60 ár aftur í tímann um jafnstöðuafla af þorski og síðan hvernig þetta hefur gengið fyrir sig eftir að íslenska kvótakerfið var tekið upp. Það er náttúrlega sláandi munur á því að meðaltalsafli í 60 ár í þorski sé u.þ.b. 400 þúsund tonn en eftir að kvótakerfið var tekið upp erum við með að meðaltali í kringum 200 þúsund tonn og þaðan af minna sum árin. Við hljótum að spyrja: Af hverju er þetta svona? Hverjar eru skýringarnar á þessu? Við höfum í raun ekki fengið nein bein svör frá vísindamönnum eða fiskifræðingum af hverju þetta er einmitt svona. Meðan svo er eru þarna mikil verðmæti í húfi og við hljótum að leita allra leiða til að skoða hvort núverandi kerfi sé hið rétta eða hvort við getum lært eitthvað af þeim sem annað kerfi hafa. Ég er ekki að taka neina afstöðu til þess hvort færeyska fiskveiðistjórnarkerfið sé á einhvern hátt betra en það íslenska. En staðreyndin er sú að okkur hefur ekki tekist að stýra uppbyggingu á helsta nytjastofni okkar í kringum landið, þ.e. þorskstofninum.

Grundvallarmunur er á þessum tveimur kerfum. Hann liggur náttúrlega að mestu leyti í því að í öðru kerfinu er verið að stýra með sókn en í hinu er verið að stýra með afla. Það þýðir að í færeyska kerfinu eru það dagar sem um er að ræða en kíló eða tonn á Íslandi. Reginmunur er á þessum tveimur leiðum til að stýra sókn í fiskstofna. Færeyska kerfinu hefur verið talið til tekna að þar sé minna brottkast og það er ég nánast viss um að sé í sóknarstýrðu kerfi. Talsverð verðmætarýrnun verður við það að ekki er komið í land væntanlega með allan afla. Umræðan um brottkast á Íslandsmiðum hefur reyndar minnkað mikið frá því sem mest var en ég held að ekki nokkur maður sem fylgist með veiðum og hvernig kvótakerfið virkar láti sér detta í hug að brottkast hafi lagst af eða sé að engu orðið.

Annað sem dagakerfi hefur kannski umfram aflamarkskerfið er að það hlýtur að draga úr kvótasvindli. Ekki er sami ábati af því að svindla með kvóta eða vigta vitlaust og hvort sem mikið er um það eða ekki í okkar kerfi hlýtur að vera minna um það í sóknarkerfi. Eftirliti með því sem kemur í land hlýtur að vera öðruvísi háttað í sóknardagakerfi en í aflamarkskerfinu og svona mætti í raun lengi telja.

Mig minnti endilega þegar við fórum yfir þetta núna að tillaga til þingsályktunar um sama efni hefði verið lögð fram hér á þingi áður. Þegar ég fletti á alþingisvefnum fann ég að þetta var rétt hjá mér því að hv. þm. Hjálmar Árnason flutti tillögu sama efnis á 128. löggjafarþingi, þ.e. á árunum 2002–2003. Ég ætla ekki að lesa þá tillögu vegna þess að hún er nánast samhljóða þeirri tillögu sem hér er verið að flytja. En hver urðu afdrif þeirrar tillögu? Hún fór í gegnum allt kerfið, í gegnum sjávarútvegsnefnd og nefndin öll sem ein, ekki minni hluti eða meiri hluti, skilaði nefndaráliti.

Í því nefndaráliti komst sjávarútvegsnefnd að samdóma niðurstöðu og hún var sú, með leyfi forseta:

„Tillagan felur í sér skipan nefndar til að gera úttekt á kostum og göllum færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Margir hafa bent á að taka ætti upp hið færeyska kerfi hérlendis. Engin úttekt hefur hins vegar verið gerð á því í samanburði við núverandi fyrirkomulag fiskveiða á Íslandi. Nefndin telur að gera þurfi slíka úttekt þannig að hægt verði að bera saman kerfin tvö með hliðsjón af sem flestum þáttum.“

Nefndarálitið er ívið lengra en niðurstaðan varð sú að þingsályktunartillagan var ekki samþykkt heldur var gerð tillaga um það í nefndarálitinu að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar og það var gert með 51 atkvæði ef ég man rétt af skjánum. Fyrir liggur mjög eindreginn vilji af hálfu löggjafarvaldsins, af hálfu Alþingis að skoðað verði hverjir eru kostir og gallar færeyska kerfisins. Þessi eindregni vilji þingsins lá fyrir strax á árinu 2003 en síðan hefur lítið gerst. Ég fann a.m.k. ekki nein merki þess að ráðuneytið eða ríkisstjórnin hefði gert nokkurn skapaðan hlut með nefndarálitið og þennan vilja Alþingis. Ef eitthvað hefði verið gert lægi væntanlega fyrir einhvers konar skýrsla, fyrir lægi einhvers konar álit þeirra sem skoða áttu hverjir væru kostirnir og hverjir væru gallarnir við færeyska kerfið. En nú stöndum við hér aftur á árinu 2005 og flytjum tillögu nánast samhljóða þeirri sem flutt var á árinu 2003 um að slík skoðun fari fram.

Ég lýsti því í fyrri ræðu minni að ég tryði því ekki að það væru einhverjir í sjávarútvegsnefnd sem ekki vildu láta fara fram skoðun á kostum og göllum annarra kerfa. Þess vegna trúi ég því enn að sú tillaga sem er hér, þegar henni verður vísað til nefndarinnar, muni fá sömu afgreiðslu og þingsályktunartillagan fékk á árinu 2003 að öðru leyti en því að augljóst er að ekki þýðir að vísa henni til ríkisstjórnarinnar. Það verður bara að samþykkja að nefndin verði sett á laggirnar og nefndin vinni vinnu sína og skili skýrslu eins og um er talað.

Ríkisstjórnin er búin að sýna það að hún ætlar ekkert að gera í þessu máli. Hún svæfði málið eftir mjög miklar umræður og afgreiðslu í sjávarútvegsnefnd. Augljóst er að ef við þingmenn viljum koma þessum vilja okkar áleiðis verðum við að samþykkja þingsályktunartillöguna eins og hún liggur fyrir en ekki að fallast á neina málamiðlun með að fela ráðherra að eiga eitthvað við hana eða fela ríkisstjórninni að gera það sem henni sýnist.

Ég sé að hv. formaður sjávarútvegsnefndar er í salnum. Mér þætti vænt um ef hægt væri að fá álit hans eða afstöðu um hvort hann hyggst styðja okkur flutningsmenn þingsályktunartillögunnar í því að koma henni hratt og vel í gegnum sjávarútvegsnefnd þannig að þessi skoðun geti farið fram og við getum fengið skýrslu um kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Ég trúi því ekki að jafnglöggur og grandvar og hv. þm. Guðjón Hjörleifsson er vilji ekki láta skoða kostina og gallana við kerfi frænda okkar Færeyinga. Mér þætti vænt um ef hv. formaður sjávarútvegsnefndar gæti gefið okkur upp hver afstaða hans er til þessarar þingsályktunartillögu.