132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[18:33]
Hlusta

Flm. (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að bjallan hringdi áður en mér tókst fyllilega að svara hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni áðan. Það er alveg rétt að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þetta útspil formanns Samfylkingarinnar. Því eins og ég sagði áðan í ræðu minni, og ég vona að hv. þingmaður hafi verið að hlusta, þá er því miður enginn vilji til sátta hjá þessum mönnum. Ég tel að það komi einmitt mjög vel fram í því hvernig brugðist er við allri umræðu, til að mynda hér í þingsalnum þar sem þessi umræða á í raun og veru að fara fram, að það er enginn vilji til sátta, því miður.

Hv. þingmanni, formanni sjávarútvegsnefndar, er náttúrlega frjálst að túlka orð mín eins og hann vill. Ég bendi honum líka á að hér eru til staðar þrír öflugir þingmenn Samfylkingarinnar (Gripið fram í: Hverjir?) og ég býst við og reikna með að þeir séu sjálfir fullfærir um að túlka hvað það var sem formaður Samfylkingarinnar átti í raun við með ræðu sinni.