132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[18:35]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil koma örstutt upp í ræðustól. Ég velti svolítið vöngum yfir síðustu ræðum og andsvari hv. formanns sjávarútvegsnefndar, Guðjóns Hjörleifssonar.

Ég held að ég verði að minna á að nýverið urðu stjórnarskipti í Noregi og ef ég veit rétt ákvað nýskipaður sjávarútvegsráðherra Noregs að hverfa frá þeirri braut sem áður hafði verið mörkuð í Noregi að taka upp framseljanlega fiskikvóta og stefna til mikillar sameiningar í kvótum og lagði til að slíkt kerfi yrði aflagt. Fiskveiðistjórnin, sérstaklega í nyrðri byggðum Noregs, yrði að taka mið af stöðu byggðanna, af stöðu atvinnulífsins í Norður-Noregi, og hún gæti ekki bara farið fram á forsendum einhverrar verslunar með kvóta, heldur yrði hún að taka mið af atvinnulífinu á viðkomandi landsvæðum og þeirri félagslegu stöðu að byggðirnar héldu ekki velli öðruvísi en hafa þennan atvinnurétt hjá sér.

Ég held að rétt sé að minna á að þessar yfirlýsingar norska sjávarútvegsráðherrans um að breyta frá seljanlegu kvótakerfi yfir í að þessi atvinnuréttur þurfi að vera hjá byggðunum eru sennilega nýjasta ákvörðunin sem fyrir liggur í sambandi við stjórn fiskveiða, a.m.k. í Norður-Atlantshafinu.

Ég vildi láta þetta koma fram vegna þess að ég heyrði ekki hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson minnast á þetta og ekki heyrði ég heldur hinn glögga þingmann Guðjón Hjörleifsson minnast á að slík þróun væri að eiga sér stað. Norðmenn voru hér á ferð fyrir tveimur, þremur árum, stór sendinefnd úr norska þinginu, til að leggja mat á íslenska fiskveiðistjórnarkerfið, þeir fóru líka til Færeyja og víðar og ef þetta er niðurstaða þeirra þá fagna ég henni. Ég held að það sé skynsamlegt að horfa til þess að byggðarétturinn sé inni í fiskveiðistjórninni.

(Forseti (BÁ): Forseti vill minna á að samkvæmt þingsköpum ber að beina andsvörum að þeirri ræðu sem flutt hefur verið en ekki að öðrum andsvörum eða öðrum þáttum.)