132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[18:45]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þessi tillaga sem gengur út á að menn skoði önnur fiskveiðistjórnarkerfi en það sem er hér við lýði hefur kveikt upp umræðu um að menn vilji ná sáttum í stjórn fiskveiða. Ég verð að segja eins og er að mér finnst ástæða til þess að halda að möguleikar til sátta um stjórn fiskveiða séu ef til vill meiri núna en áður hafa verið. Það hefur sérstaklega komið fram í framhaldi af síðasta fundi LÍÚ og umræðu sem fylgdi í kjölfarið að allir flokkarnir sem eiga þingmenn á Alþingi eru tilbúnir til að standa að því að setja í stjórnarskrána ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Þar er engin undantekning og ríkisstjórnin er með þetta í stjórnarsáttmála sínum.

Þetta þýðir alveg örugglega að hið opinbera verður að gæta eignarhaldsins fyrir hönd þjóðarinnar á þjóðarauðlindinni, hver sem hún er. Það getur ekki verið að slíkt sé gert í plati. Menn hljóta að þurfa að sjá til þess að þær reglur sem gilda um aðgang að þjóðarauðlindum séu þannig að auðlindin haldist í raunveruleikanum í eigu þjóðarinnar. Það kerfi sem viðgengst núna í sjávarútveginum gengur ekki upp að þessu leyti og það er heldur ekki skynsamlegt til framtíðar.

Hvernig halda menn yfirleitt að það muni ganga að breyta t.d. um fiskveiðistjórnarkerfi með því eignarhaldsfyrirkomulagi sem er núna? Hver er mesti vandinn við að breyta t.d. yfir í færeyska kerfið ef við ætlum að gera það? Mesti vandinn er fólginn í eignarhaldi útgerðarmanna á veiðiheimildunum, ekki kerfisbreytingunni sjálfri, heldur þessu eignarhaldi sem bókstaflega fléttar saman alla hluti í sjávarútveginum. Út úr því þurfum við að komast vegna þess að það er óþolandi að menn geti ekki stjórnað fiskveiðum á Íslandi á sem skynsamlegastan hátt sem menn sjá á hverjum tíma vegna þess að einhverjir útgerðarmenn eigi auðlindina. Það er fáránlegt, enda eru allir stjórnmálaflokkar sammála um að þetta sé þjóðarauðlind og hún eigi að fara inn í stjórnarskrána.

Ég held að það séu æðimargir sem hafa ekki lagt sig eftir að velta því fyrir sér hvað það þýðir. Þjóðarauðlind er auðlind í eigu þjóðar. Hún er ekki í plati í eigu þjóðarinnar heldur munu stjórnvöld auðvitað gegna eignarhaldinu fyrir hönd þjóðarinnar þegar um slíka auðlind er vélað. Það mun auðvitað ekki gerast á auga lifandi bragði að menn hlaupi frá því fyrirkomulagi sem er núna. Þess vegna bentum við samfylkingarmenn á fyrningarleiðina. Hún var hugmynd um aðlögun. Hún er að mínu viti mjög góð hugmynd um aðlögun að leigukerfi fyrir hönd þjóðarinnar þar sem menn væru að gegna slíku eignarhaldi. Hugsanlegt er að menn geti fundið aðrar leiðir sem uppfylla grundvallaratriðin sem við erum þarna að hugsa um og þá erum við vissulega tilbúnir að standa að því að skoða það. Fyrningarleiðin er ekki heilög kýr í okkar augum. Ef menn finna aðra aðferð sem er jafngóð og uppfyllir þessi grundvallaratriði þá erum við með í það í Samfylkingunni og við erum tilbúin í þá umræðu og höfum verið það lengi.

Miðað við þá umræðu sem hér hefur verið í gangi af hálfu t.d. ýmissa sjálfstæðismanna, er ég smeykur um að þeir hafi ekki gert sér grein fyrir hvað það þýðir að setja auðlindir inn í stjórnarskrána sem þjóðarauðlindir. Það er ekki hægt að hafa neinn undanslátt frá eigu þjóðarinnar. Ef við ætlum að segja við börnin okkar að eitthvað sé þjóðarauðlind þurfum við að gæta eignarhaldsins fyrir hönd þjóðarinnar, þeir sem með völdin fara á hverjum tíma í landinu.