132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Málefni Listdansskóla Íslands.

[10:32]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Síðan þing kom saman hef ég beðið eftir tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. menntamálaráðherra um þá fljótfærnislegu og illa grunduðu ákvörðun hennar að leggja Listdansskóla Íslands niður. Ég fæ ekki betur séð en að óðagot og flumbrugangur ráðherrans stefni listnámi á Íslandi í voða því að nú hafa listdansnemar bæst í hóp með tónlistarnemum svo sífellt stækkar hópur þeirra ungu listnema sem eru uggandi um sinn hag. Hæstv. ráðherra geysist yfir uppeldisstöðvar listamanna með mætti eyðileggingarinnar svo það var ekki langsótt samlíkingin sem formaður Bandalags ísl. listamanna kaus að nota í Morgunblaðsgrein á dögunum á þeim tíma sem fellibylurinn Katrín gekk yfir suðurríki Bandaríkjanna.

Ég vil taka það fram að mér er vel kunnugt um nýja námsbraut í Listaháskóla Íslands í listdansi en stend engu að síður við þessi orð mín því allt sem heitir heildstæð nálgun, yfirvegun og samráð við fagaðila skortir í ákvarðanir ráðherrans í þessum efnum. Ég óska því eftir, frú forseti, að við þessa umræðu svari hæstv. ráðherra því hvað í ósköpunum vakir fyrir henni með einhliða ákvörðun um að leggja Listdansskóla Íslands niður og hvers vegna hún hafi ekki lyft litla fingri til að hafa samráð þar um.

Hverjar eru svo hugmyndir hæstv. ráðherra um framtíð listdansmenntunar á Íslandi? Í fjölmiðlum hefur hún látið hafa eftir sér að Menntaskólinn við Hamrahlíð geti komið þar að málum eða bara einhverjir aðrir framhaldsskólar sem kjósi að hafa listdans á kennsluskrá sinni. Og ef þetta vefst eitthvað fyrir þeim geti þeir bara samið um listdanskennslu við einkaaðila. Hæstv. forseti. Heyr á endemi. Þvílík fáfræði um ytri umgjörð og tæknilega aðstöðu listdanskennslu á Íslandi að halda að hún geti bara farið fram í hvaða leikfimisal sem er. Menntaskólinn við Hamrahlíð hefur ekki einu sinni leikfimisal, hann er búinn að bíða eftir íþróttahúsi í yfir 30 ár. Og hvað ætlar ráðherrann svo að vera örlátur á tímafjölda í væntanlegri námskrá í þessu nýja fyrirkomulagi sínu? Ætli hún geri ráð fyrir því að hægt verði að hægt verði að dvelja í 15 kennslustundir á viku við æfingar eins og ungir listdansnemar gera í dag og fá það að fullu metið? Auðvitað ekki. Hún ætlar auðvitað að fara sömu leið og með tónlistarnemana, þ.e. að greiða einungis fyrir þær einingar sem teljast gildar til stúdentsprófs og foreldrar hinna upprennandi listamanna geta svo bara greitt það sem upp á vantar.

Frú forseti. Það er ábyrgðarhluti að kenna upprennandi listamönnum og uppeldi þeirra hefst snemma á lífsleiðinni þó aldrei eins snemma og hjá dönsurum. Sérstaða þeirra í flóru listamanna er sannarlega ótvíræð. Þeir hefja iðulega nám við 5–6 ára aldur og framtíð þeirra er jafnvel ráðin við 9 eða 10 ára aldurinn. Oft eru þeir farnir að vinna fyrir sér 16–17 ára gamlir og svo er starfsævi þeirra lokið við fertugsaldur.

Frú forseti. Þessir ungu listamenn eru fókuseraðir á allt annað en það hversu mikið af listdansnámi þeirra fæst metið sem einingar til stúdentsprófs. Mér sýnist augljóst að hæstv. menntamálaráðherra stjórnist af þráhyggju einni saman í þessu máli. Hún hefur í heiðri flokkslínuna um niðurskurð ríkisútgjalda og trúarsetninguna um að einkaaðilar geti gert allt betur en ríkið og hún sér álitlegt fórnarlamb í Listdansskóla Íslands.

Nú stendur hún að vísu frammi fyrir þeim vanda að það brást enginn einkaaðili við útspili hennar, enda vita þeir sem nú starfa á þessum akri að mikils er þörf. Þeir trúa sennilega ekki heldur að nauðsynlegir fjármunir komi til með að fylgja verkefninu. Mér kæmi þó ekki á óvart að hæstv. ráðherra lofi þeim sem vilja taka við Listdansskólanum gulli og grænum skógum úr opinberum sjóðum, því í praxís hefur einkavæðing Sjálfstæðisflokksins farið þannig fram að einkaaðilar fá þær upphæðir sem hinar opinberu stofnanir hafa tekið til sín og arðsemiskröfuna að auki. Þannig höndla sjálfstæðismenn með niðurskurð ríkisútgjalda.

Það veldur hæstv. ráðherra líka trúlega nokkrum vanda að hún hefur fengið dansara og aðra listamenn upp á móti sér og er hún úr þeirri átt sökuð um harkalegar aðgerðir, óbilgirni og skort á samráði. Frú forseti. Hljómar þetta ekki svipað og ásakanir framhaldsskólakennara sem nú eiga í stríði við hæstv. ráðherra vegna skerðingar náms til stúdentsprófs? Vilji hæstv. menntamálaráðherra að fram fari fagleg og málefnaleg endurskoðun á framkvæmdinni við undirstöðunám í listgreininni þá á hún að sjálfsögðu stuðning allra þeirra sem vinna að málefnum listdans á Íslandi. En hæstv. menntamálaráðherra kýs að fara aðra leið og á meðan fjarar undan Listdansskólanum. Nemendur og foreldrar eiga að kveljast í óvissu um framtíðina.

Frú forseti. Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að endurskoða ákvörðun sína og styrkja stöðu Listdansskóla Íslands til framtíðar í stað þess að leggja hann niður. Hún skuldar listunum í landinu það.