132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Málefni Listdansskóla Íslands.

[10:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hinn 16. ágúst birtist sveit manna úr menntamálaráðuneytinu til að kynna starfsmönnum Listdansskólans á fyrsta starfsfundi eftir sumarfrí þá pólitísku einhliða ákvörðun menntamálaráðherra að leggja skólann niður. Þetta var tilkynning um pólitíska aftöku Listdansskóla Íslands. Ekkert samráð, engin umræða um hvað kynni að henda þá nemendur sem hugsanlega flosna upp frá námi, ekkert rætt um samskipti sem þróuð hafa verið við útlönd, ekkert samráð, bara valdboð.

Í máli hæstv. ráðherra kemur fram að hún telur sig hafa góðan málstað að verja. En hvers vegna þolir hann þá ekki umræðu við þá sem hafa sinnt þessum málum og hafa gert um langt árabil? Listdansskólinn, sem nú á að leggja niður, á að baki sér rúmlega hálfrar aldar sögu sem er samfléttuð sögu Þjóðleikhússins og annarra menningar- og listastofnana. Ef litið er til starfs skólans á undanförnum árum, hvernig hann hefur eflst og dafnað stóðu flestir í þeirri trú að hann ætti bjarta framtíð fyrir sér. Annað hefur komið á daginn.

Okkur er sagt að til standi að efla deild í listdansi við Listaháskólann en þar er vel að merkja um að ræða nám að lokinni grunn- og framhaldsskólakennslu en þeirri kennslu hefur Listdansskólinn hins vegar sinnt og má segja að í eiginlegum skilningi hafi hann verið vagga þessarar listgreinar. Rúmlega 150 nemendur eru þar á grunn- og framhaldsskólastigi. Nemendum hefur gefist kostur á að taka 40 einingar til stúdentsprófs. Reyndar er Listdansskólinn einnig viðurkenndur sem skóli á háskólastigi og hefði verið nær að efla hann, a.m.k. að ræða þann valkost að efla hann í stað þess að dreifa kröftunum. (Forseti hringir.) Ég hvet eindregið til þess að fallið verði frá þeirri ákvörðun að leggja niður Listdansskóla Íslands.