132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Málefni Listdansskóla Íslands.

[10:47]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þá umræðu sem hér á sér stað um málefni Listdansskóla Íslands. Eins og við höfum orðið vitni að á síðustu vikum hefur ákvörðun hæstv. menntamálaráðherra um breytingar á skipulagi listdanskennslu hlotið nokkra gagnrýni bæði hér á Alþingi og annars staðar.

Að mínu mati er sú gagnrýni sem haldið hefur verið á lofti gagnvart hæstv. menntamálaráðherra ekki sanngjörn. Því hefur verið haldið fram að með því að ráðast í þær breytingar sem boðaðar hafa verið og fela m.a. í sér að Listdansskóli Íslands verði lagður niður sé verið að ganga milli bols og höfuðs á slíku listnámi. Þetta er einfaldlega ekki rétt, virðulegi forseti, þó að ýmsir hv. þingmenn sem hér hafa talað kjósi að leggja málið upp á þann hátt. Fyrir mína parta fæ ég ekki betur séð en að ákvörðun hæstv. menntamálaráðherra sé skynsamleg. Með henni er ekki verið að grafa undan listdansnámi, síður en svo. Með henni er þvert á móti verið að treysta umgjörð listnáms og tryggja því þá viðurkenningu og þann sess sem það á skilið innan framhaldsskólastigsins hliðstætt því sem tíðkast um kennslu í öðrum listgreinum á framhaldsskólastigi. Við trúum því að slíkt fyrirkomulag sé til góðs fyrir þessa listgrein og jafnframt til hagsbóta fyrir þá nemendur og kennara sem hana stunda.

Þegar maður hlustar á þær umræður sem hér hafa farið fram hlýtur maður að spyrja sig hvers vegna sumir hv. þingmenn eru þeirrar skoðunar að þessi eina listgrein eigi að standa utan þess fyrirkomulags sem almennt hefur verið farið eftir í menntakerfi okkar. Sjálfur hefði ég haldið að með því að láta listdansinn, einan listgreina, standa utan kerfisins leiddi það til þess að hann yrði hornreka í menntakerfinu. Að slíkri þróun ætlum við sjálfstæðismenn ekki að standa.

Ég vil líka taka fram vegna þess sem hér hefur komið fram að þær hugmyndir sem hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt fram eru ekki settar fram í sparnaðarskyni enda getur enginn hv. þingmaður (Gripið fram í.) bent á að í þeim felist áform um (Gripið fram í.) að verja minni útgjöldum til kennslu í listdansnámi. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr er það mín bjargfasta trú að hugmyndir hæstv. menntamálaráðherra um breytingar á skipulagi listdanskennslu muni efla þá listgrein en ekki veikja hana.