132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Málefni Listdansskóla Íslands.

[10:52]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Í áratugi hefur svo verið að í íslenskum framhaldsskólum hefur listnám verið af skornum skammti. Má því segja að nemendur sem farið hafa í gegnum framhaldsskóla hafi misst af því tækifæri að geta valið sér listgreinar með því almenna námi sem þeir hafa stundað. Ég tel að það sé skaði fyrir þá nemendur og fyrir samfélagið í heild sinni af því að hinn listræna þátt hefur mikið vantað inn í framhaldsskólann.

Ég túlka orð ráðherra og ákvörðun ráðherra svo og held að ekki sé hægt að túlka orð hæstv. ráðherra öðruvísi en að markmiðið sé að efla almennar listgreinar í hinum almenna framhaldsskóla landsins. (ÖS: En Listdansskólinn?) Ég sé ekki betur en að markmiðið sé það að gera listgreinum almennt hærra undir höfði í hinum almenna framhaldsskóla, (KolH: … listamennirnir verða til.) ekki einungis í sérskólum. (BjörgvS: Með grunnskólunum.) Frú forseti, ef ég mætti halda áfram fyrir æsingi sem er hér. (Gripið fram í: Talaðu um Listdansskólann.) Ég túlka það svo að þetta sé markmiðið.

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Frú forseti. Það hefur gerst áður að skólar hafi verið sameinaðir og þarf ekki að fara mjög langt aftur í tímann þegar Tækniháskólinn og Háskólinn í Reykjavík voru sameinaðir. Þá heyrðust raddir, dómadagsraddir eins og hér hafa heyrst í dag um að það væri óheppileg ákvörðun. Það þarf ekki annað en að ræða við starfsfólk hins sameinaða skóla og nemendur þar til að heyra hversu ánægðir bæði nemendur og kennarar eru með þá ákvörðun. (Gripið fram í.) Þeir telja að sú sameining hafi einungis leitt gott af sér og þar ríki almenn ánægja.

Ég tel meginatriðið í þessu, frú forseti, vera þá yfirlýsingu hæstv. ráðherra að hér á ekki að spara. Í öðru lagi tel ég (Gripið fram í.) að það skipti miklu máli að tryggja og vista skólann á öruggum stað þar sem meginmarkmiðunum er haldið. Það tel ég skipta meginmáli. (Gripið fram í.) Og það sem skiptir máli, frú forseti, er að það á að opna tækifæri fyrir aðra framhaldsskóla að taka upp og efla listnám sem hefur skort. (Forseti hringir.) Á það þurfum við að horfa og ber að fagna. (ÖJ: Vesalings Framsókn.)

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð í þessari umræðu.)