132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Málefni Listdansskóla Íslands.

[10:54]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er alveg með eindæmum. Það sem komið hefur fram í umræðunni er það að hæstv. menntamálaráðherra ætlar að leggja niður Listdansskóla Íslands af því að hann passar ekki inn í kerfið hennar, hann passar ekki inn í kerfið grunnskóli/framhaldsskóli.

Hæstv. menntamálaráðherra talar af fullkominni fákunnáttu um málið. Listdansskóli Íslands er að ala upp listamenn í listdansi sem lúta öðrum lögmálum en aðrir listamenn í sjálfu sér, eins og ég rakti í máli mínu, af því að þeir þurfa að hefja nám sitt mjög ungir og þurfa gríðarlegan tíma til að stunda listgrein sína. Og auðvitað fá þeir ekki nema lítið brot af því metið til eininga til stúdentsprófs. Hæstv. ráðherra talar af fákunnáttu. Það gerir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, líka.

Sannleikurinn er þessi, svo ég fái að vitna til lesendabréfs sem birtist í Morgunblaðinu um daginn, skrifað af Ragnheiði Gestsdóttur, með leyfi forseta, en hún sagði:

„Við stingum ekki upp rósarunnann sem blómstrar svo fallega við suðurvegginn og færum hann norður fyrir hús, bara til að athuga hvort hann lifi það af. Það er ekki skynsamleg garðyrkja.“

Þetta er mergurinn málsins, frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra er að fremja afglöp. Hún hefur ekki haft samráð þó að hún segi það. Hún segir að þetta sé ekki í sparnaðarskyni en hvar eru fjármunirnir? Ekki eru þeir í fjárlagafrumvarpinu.

Hæstv. ráðherra hefur svarað hér út í hött og hún hefur sýnt og sannað að hún ber ekki hag listgreinarinnar fyrir brjósti með þessum aðgerðum sínum, heldur flokkspólitíska hagsmuni sína um einkavæðingu og einhvern ímyndaðan niðurskurð ríkisútgjalda. Ég segi við hæstv. menntamálaráðherra: Góða skemmtun á frumsýningunni í kvöld hjá Íslenska dansflokknum sem er að frumsýna frábært verk í Borgarleikhúsinu. Ég geri ráð fyrir að hún verði þar.