132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Málefni Listdansskóla Íslands.

[10:56]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka enn og aftur að með þessari ákvörðun er ekki verið að vega að kennslu í listdansi heldur er verið að færa kennslu í listdansi í sama horf og annað listnám í landinu. (KolH: Hvaða …) Verið er að gera umhverfi þess þannig að hver listgrein, hver og ein fái að njóta sín eins og frekast er unnt og við verðum að byggja upp þannig kerfi að hver og ein listgrein í skjóli þeirrar sérstöðu sem hún hefur, eins og listdansinn, eins og tónlistin, og fleiri (Gripið fram í.) merkilegar listgreinar fái að njóta sín innan þess ramma sem við höfum mótað og skapað á undanförnum árum. Ríkið rekur heldur ekki skóla á öðrum sviðum listnáms á grunnskóla- og framhaldsskólastigi. Ríkið rekur ekki tónlistarskóla og ríkið rekur t.d. ekki myndlistarskóla svo dæmi séu tekin.

Það er ekki verið að draga úr fjárhagslegum stuðningi við nám í listdansi eða við listdansinn almennt, þvert á móti, og ég bið menn að athuga fjárlögin. Á þessu ári er gert ráð fyrir aukningu á framlagi til okkar frábæra Íslenska dansflokks. Þýðir það að ég vilji listdansinum allt til foráttu? (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu ekki. Ég hef heimilað Listaháskóla Íslands að setja af stað listdansnám á háskólastigi. Þýðir það að ég vilji vera listdansinum þrándur í götu? Að sjálfsögðu ekki. Og auðvitað verður að horfa á þetta heildrænt. Með þeim breytingum sem verið er að framkvæma er verið að reyna að efla og styrkja umgjörðina í kringum listdansinn sem og aðrar listgreinar innan framhaldsskólastigsins.

Hins vegar verða stjórnmálamenn að sjálfsögðu að þora að gera breytingar á ríkjandi fyrirkomulagi ef þeir eru sannfærðir um að slíkar breytingar muni verða til farsældar fyrir viðkomandi listgrein til frambúðar þrátt fyrir tímabundin óþægindi. (Gripið fram í.) Menn þurfa stundum að þora. (Gripið fram í.) Ljóst er að það þurfti að fara í ákveðnar breytingar, m.a. út frá þróun í skólastarfi og skólakerfinu á umliðnum árum. Ég er sannfærð um, virðulegur forseti, að þær breytingar sem verið er að gera á listdansnáminu muni leiða til þess að aukið jafnræði verði milli listgreina og að grunn- og framhaldsskólanám í listdansi verði áfram jafnöflugt (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) og áður. (Gripið fram í: … Ertu búin að því?)