132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Bensíngjald og olíugjald.

30. mál
[10:59]
Hlusta

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga á þskj. 30, um breytingu á lagaákvæðum sem varða bensíngjald og olíugjald. Flutningsmenn ásamt mér eru Kristján L Möller, Einar Már Sigurðarson, Jón Gunnarsson, Rannveig Guðmundsdóttir og Valdimar L. Friðriksson.

Með þessu frumvarpi er lagt til að bensín- og olíulítrinn lækki tímabundið um 5 kr. Lögð er til 4 kr. tímabundin lækkun á almennu vörugjaldi af bensíni þannig að það lækki úr 9,28 kr. í 5,28 kr. Auk þess er lögð til sama lækkun á olíugjaldinu þannig að það lækki úr 41 kr. í 37 kr., en olíugjaldið var lækkað tímabundið 1. júlí 2005 til 31. desember 2005 úr 45 kr. í 41 kr.

Með breytingunni mundi útsöluverð á bensíni og olíu lækka um tæpar 5 kr. þegar virðisaukaskattur hefur verið lagður á eða um 9–10%. Lagt er til að lækkunin verði tímabundin frá 1. nóvember næstkomandi til loka mars 2006 eða í fimm mánuði.

Sú leið sem hér er lögð til er hin sama og ríkisstjórnin fór árið 2002 með þeim rökstuðningi að áhrif hækkunar á bensínverði væri umtalsverð og gæti stofnað verðlagsmarkmiðum kjarasamninga í hættu. Sömu rökum teflum við fram núna er við mælum fyrir breytingunni um tímabundna lækkun á bensíni og olíu.

Við vitum að í vísitölunni hefur húsnæðisverð og eldsneytisverð vegið mjög þungt. Þetta gæti því haft veruleg áhrif á vísitöluna. Verðlagsáhrifin af því að lækka verð á bensíni og dísilolíu eru 0,2% í vísitölunni en eldsneytið vó um 5,3% af vísitölugrunninum í september. Slík breyting á vísitölunni hefði jákvæð áhrif þegar áhrifin á kjarasamninga eru metin. En það stendur einmitt yfir þessa dagana, virðulegi forseti.

Verðbólgan er nú meira en 4% og er komin yfir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Fram hefur komið hjá ASÍ að líkur á að forsendur kjarasamninga haldi í nóvember séu hverfandi. Við undirskrift kjarasamninga á fyrri hluta ársins 2004 var verðbólgan 1,8% og var við það miðað að hún yrði sem næst 2,5% á samningstímanum. FÍB hefur áætlað að eldsneytisútgjöld almennings í landinu aukist um tvo milljarða kr. á heilu ári miðað við verðþróunina á heimsmarkaði frá síðustu áramótum.

Bensínlítrinn hefur hækkað gífurlega frá því að ríkisstjórnin beitti sér fyrir tímabundinni lækkun á bensíni vegna kjarasamninga um mitt ár 2002. Frá þeim tíma eða frá júlí 2002 til september 2005 hefur útsöluverðið á bensínlítra án afsláttar hækkað úr 97 kr. í 121,50 kr. eða um 25%. En frá því að þetta var skoðað, í septembermánuði, hefur orðið nokkur lækkun á bensíni sem ég mun fara yfir á eftir, þ.e. bensínlítrinn hefur lækkað úr 115 kr. í 108 kr. Það er athyglisvert að svo virðist sem olíufélögin séu ekki að lækka álagningu á bensíni með þjónustu í samræmi við meðalálagningu á árinu. Álagningin á bensíni með þjónustu er tæplega tveimur krónum yfir meðalálagi fyrstu níu mánuði ársins.

Það er eðlilegt að skoða hvaða áhrif það hefur á tekjur ríkissjóðs að lækka tímabundið álögur ríkissjóðs á bensín. Tekjutap ríkisins vegna lækkunar á bensíngjaldi, ásamt lækkun á virðisaukaskattstekjum, yrði um 378 millj. kr. og tekjutap vegna lækkunar á olíugjaldinu um 166 millj. kr. eða samtals rúmar 544 millj. kr. á gildistímanum sem frumvarpið kveður á um.

Á móti má nefna að árlegar virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs sem rekja má beint til hækkunar á heimsmarkaðsverði hafa aukist stórlega. Samanburður á heimsmarkaðsverði á bensíni í september 2005 og heimsmarkaðsverði á árunum 2003 og 2004 leiðir í ljós að virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs aukast um yfir 600 millj. kr. á einu ári haldist þetta háa heimsmarkaðsverð. En eins og ég nefndi áðan hefur verðið aðeins lækkað þannig að þær tölur sem settar voru á blað er þetta frumvarp var samið í september síðastliðnum gætu hafa breyst. Einnig er ljóst að áætlanir um tekjur ríkissjóðs af olíugjaldinu eru vanmetnar. Tekjuforsendur hafa verið miðaðar við 81 milljónir lítra en áætla má að magn dísilolíu sé meira en tekjuforsendur fjárlaga miða við. En misvísandi upplýsingar hafa komið fram um selt magn af dísilolíu sem ber olíugjald. Því ætti tímabundin lækkun á dísilolíu ekki að hafa áhrif á fé til vegamála og lækkun á almenna bensíngjaldinu hefur ekki áhrif til skerðingar á vegafé. Ég tel mikilvægt að halda því til haga.

Eins og ég nefndi áðan hefur orðið nokkur lækkun á bensínverði, sem betur fer. Ég tel ástæðu til þess að skoða þá í því samhengi og velta fyrir sér hvort ætla megi að lækkunin á undanförnum vikum haldi eitthvað áfram. Í því sambandi vil ég vitna í nýja skýrslu Seðlabankans um peningamál. Þar er komið inn á þetta, virðulegi forseti. Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna í þann kafla í Peningamálum Seðlabankans sem fjallar um ytri skilyrði, horfur og hagvexti í heiminum og spá þeirra varðandi hækkun á olíuverði. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hækkun hráolíuverðs á seinni hluta þessa árs gæti þó veikt útkomuna verulega. Hráolíuverð hefur aldrei verið hærra að nafnvirði en það var í kjölfar fellibylsins Katrínar og þrátt fyrir að hafa lækkað eitthvað er það um 60% hærra en það var að meðaltali árið 2004. Ótryggt ástand í Miðausturlöndum og ótti um að ekki takist að auka framleiðslu sem nemur vexti eftirspurnar olli hækkunum á olíuverði í ágúst. Sá ótti magnaðist eftir að fellibylurinn Katrín olli því að framleiðsla stöðvaðist við Mexíkóflóa. Þótt framleiðslan liggi aðeins niðri tímabundið munu áhrif þess á olíuverð væntanlega vara um nokkurt skeið. Verð hefur þó lækkað frá methæðum skömmu eftir að fellibylurinn gekk yfir þar sem ýmsar þjóðir hófu að ganga á birgðir sínar og juku þar með framboð. Eftirspurn mun líklega verða meiri á næsta ári en áður var spáð, þegar þau ríki sem nú hafa minnkað birgðir sínar fara að auka þær á ný. Því mun olíuverð líklega haldast hátt um nokkurt skeið.“

Ég ítreka þetta, virðulegi forseti, að þetta er mat Seðlabanka: „Því mun olíuverð líklega haldast hátt um nokkurt skeið.“

Áfram segir í þessu hefti Peningamála, með leyfi forseta:

„Framvirkir samningar gefa til kynna að olíuverð muni hækka örlítið frá núverandi verði út árið og halda áfram að hækka í byrjun næsta árs ... Bensínverð hefur fylgt hækkun olíuverðs eftir en ekki lækkað alveg jafnmikið nú í september. Það er um þessar mundir 65% hærra en að meðaltali á árinu 2004.“

Þannig að ef menn halda að þær lækkanir sem orðið hafa muni haldast áfram, þ.e. eldsneytisverð lækka meira, þá er það ekki mat Seðlabankans. Þeir spá að olíuverð muni haldast hátt. Þeir meta það svo að olíuverð muni hækka út árið og halda áfram að hækka í byrjun næsta árs. Við gerum ráð fyrir að lækkunin sem hér um ræðir standi fimm mánuði, þ.e. tímabilið fram í mars á næsta ári. Nú erum við náttúrlega komin inn í nóvembermánuð. Áformað var að þetta frumvarp tæki gildi 1. nóvember, sem ekki verður, þannig að efnahags- og viðskiptanefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, þarf að skoða málið í því ljósi og horfa m.a. til ytri skilyrða sem Seðlabankinn hefur lagt mat á varðandi þróunina á olíuverði.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi okkar er gert ráð fyrir að þegar gildistíma lækkunarinnar ljúki, í marslok á næsta ári, þurfi að meta hvort ástæða sé til að framlengja hana með tilliti til heimsmarkaðsverðs. Einnig væri eðlilegt að athugað yrði að stytta gildistímann ef heimsmarkaðsverðið lækkaði verulega og bensínlítrinn færi t.d. í um 20 kr., sem var meðalverð á heimsmarkaði á síðasta ári.

Í útreikningum sem ég hef fengið kemur fram að þrátt fyrir þá lækkun sem nú hefur orðið á innkaupsverði, úr 32,93 niður í 27,44 kr. í októbermánuði, þá hefur, samkvæmt þeim tölum sem ná aftur til ársins 1996, verið jafnhátt innkaupsverð á bensíni og ég nefndi hér. Það sem næst því kemur er í maímánuði 2001, eingöngu í þeim mánuði fór verðið í 27,30 kr. Þegar litið er á meðalverð ársins, eins og staðan er nú, með þeirri lækkun sem orðið hefur í október erum við samt enn þá í 25,50 kr. Sé litið til meðaltals síðustu sex mánaða erum við enn í 28,25 kr. í innkaupsverði. Við miðum við að ástæða sé til þess að skoða það að stytta gildistímann ef bensínlítrinn færi t.d. í um 20 kr., sem var meðalverð á heimsmarkaði á þá öllu síðasta ári. Forsendur fyrir því að halda þessu máli áfram, þrátt fyrir lækkun undanfarið, eru að fullu til staðar. Hef ég þar vitnað í þróunina eins og hún hefur verið á nokkrum umliðnum árum og í spá sem Seðlabankinn hefur sett fram varðandi bensínverðið.

Það er út af fyrir sig, virðulegi forseti, ekki ástæða til að hafa mikið lengri framsögu um þetta mál. Ég vil þó nefna í lokin að heildarskatttekjur ríkisins af bílum og umferð fara yfir 40 milljarða kr. á þessu ári en voru 31 milljarður kr. á síðasta ári. Hér er um að ræða 30% aukningu á tekjum ríkissjóðs af bílum en um helmingur heildarskatttekna ríkisins af bílum er vegna notkunar og um helmingur vegna bílakaupa. Bensínreikningur einnar fjölskyldu á ári er áætlaður 400 þús. kr. og hefur hækkað verulega á þessu ári. Ástæða er til að nefna einnig að 60% af verði hvers bensínlítra fer í skatta, þ.e. almennt vörugjald, sérstakt vörugjald og virðisaukaskatt. Hækkun á bensíni kemur mjög við pyngju heimilanna og það er ekki eðlilegt, virðulegi forseti, að ríkissjóður hagnist verulega á þeim miklu sveiflum sem verða á heimsmarkaðsverði, m.a. vegna fellibylja, eins og ég nefndi áðan. Manni finnst óeðlilegt að hækka þurfi bensínreikning heimila og fyrirtækja þegar svo er.

Ég vil taka fram, af því að ég hef líka látið skoða það miðað við þá lækkun sem orðið hefur á bensínverðinu, hvert eldsneytisverð er í Evrópulöndum. Þar trónir Ísland á toppnum með langhæsta verðið á bensínlítranum. Það voru 113 kr. þegar þetta var tekið út, miðað við 10. okt. 2005. Ég held að þetta séu 30 lönd en af þeim er Ísland í fyrsta sæti hvað varðar hátt eldsneytisverð. Næst kemur Holland með rúmlega 109 kr. Í þriðja sæti er Belgía með 103 kr. og Noregur með 102 kr. Allar aðrar þjóðir eru undir hundraðkallinum og hjá mörgum kostar bensínlítrinn á milli 70 og 80 kr. En við erum, eftir þessa lækkun, í um 113 kr. Þetta er umhugsunarvert, að ríkissjóður skuli taka svona mikið til sín í gjöld og álögur af bensíni. Það vegur þungt í kjörum og afkomu heimilanna, hefur mikil áhrif á vísitöluna og þar með verðbólguna.

Ég vil halda því til haga í lokin að yfir 13 þúsund einstaklingar hafa skrifað undir áskorun FÍB um lækkun á eldsneytissköttum. Ég held að það hafi verið í ágústmánuði. Þar var skorað á stjórnvöld að draga úr verðáhrifum þeirrar neikvæðu þróunar sem átt hefur sér stað á heimsmarkaði á umliðnum mánuðum. FÍB hefur jafnframt bent á að á þessu ári verður einungis 13 milljörðum kr. varið til vegagerðar af 40 milljarða kr. heildartekjum ríkisins af bílasköttum.

Ég læt þá máli mínu lokið, virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að efnahags- og viðskiptanefnd fjalli skjótt um þetta mál og taki það fljótt til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu. Ég tel að þessar aðgerðir gætu haft veruleg jákvæð áhrif í þeim viðkvæmu umræðum sem fara nú fram varðandi kjarasamninga. Verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins eru að meta það hvort ástæða sé til að segja kjarasamningunum upp. Ég hef getið um verðlagsáhrifin af því að lækka þetta tímabundið þannig að mér virðast öll rök mæla með því að þessi leið verði farin nú. Ég ítreka að ríkisstjórnin valdi á árinu 2002 að lækka tímabundið almennt vörugjald með þeim rökstuðningi að áhrif hækkunar á bensínverði, sem var þá umtalsverð, gæti stofnað verðlagsmarkmiðum kjarasamninga í hættu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og efnahags- og viðskiptanefndar.