132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Bensíngjald og olíugjald.

30. mál
[11:20]
Hlusta

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hefur formaður efnahags- og viðskiptanefndar talað en sú nefnd fær málið til umsagnar. Það hlýtur að draga úr von þeirra sem hlýða á ræðu hv. þingmanns um að þetta mál nái fram að ganga. Í staðinn fyrir að hv. þingmaður reyni að tala þetta mál niður finnst mér að það eigi að fara í efnislegar rökræður um það í efnahags- og viðskiptanefnd og sjá hvort við náum ekki samkomulagi. Og þá væri fróðlegt að vita hvort hv. þingmaður, sem greinilega finnst allt í lagi að við séum með hátt bensínverð og vitnar þar til mengunar- og umhverfissjónarmiða, er stoltur af því að Ísland tróni í fyrsta sæti með hæsta eldsneytisverð í Evrópu og langt yfir aðrar þjóðir sem flestar eru undir hundraðkallinum og mjög margar á milli 70 og 80 kr. Mér finnst að hv. þingmaður eigi að skoða málið í því ljósi. Þó að vissulega eigi að horfa til umhverfis- og mengunarsjónarmiða í öllum málum sem þau snerta þá erum við bara komin allt of hátt, virðulegi forseti, í því að hala inn í ríkiskassann fjármagn af eldsneyti.

Það er ekki hægt að mæla á móti því að skatttekjur ríkissjóðs hafa verið að aukast verulega vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði. Útreikningar sýna að á heilu ári, miðað við stöðuna eins og hún var í september, þó hún hafi aðeins breyst núna, erum við að tala um að 600 millj. fari í ríkiskassann miðað við að heimsmarkaðsverði verið áfram hátt og ég heyri að hv. þingmaður er sammála mér um það að verðið á bensíni og olíu verði áfram hátt.