132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Bensíngjald og olíugjald.

30. mál
[11:26]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu lagaákvæða sem varða bensín- og olíugjald. Á mannamáli þýðir þetta að við, nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, leggjum fram frumvarp til laga um það að tímabundið verði ráðist í aðgerðir sem komi til með að lækka verð á olíu og bensíni um 5 kr. á lítrann meðan við horfum fram á hið háa heimsmarkaðsverð á þessu eldsneyti.

Ég verð að segja að það kom mér svolítið á óvart að hlusta á andsvör hv. þm. Péturs Blöndals við ræðu hv. 1. flutningsmanns, Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar gerði hv. þm. Pétur Blöndal mikið úr því að skattur ríkisins á þetta eldsneyti væri föst krónutala og það er alveg rétt ef við horfum á þessi gjöld en ekki á virðisaukaskattinn. En mér heyrðist hv. þingmaður vera að segja að það mætti ekki bregðast við háu olíuverði á heimsmarkaði með því að lækka þessa krónutölu eða álögur ríkisins tímabundið á meðan við horfum upp á hina miklu hækkun á eldsneyti, hann talaði um að við mættum ekki falla í þá gryfju að fara að niðurgreiða hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu og bensíni. Mér finnst þetta alveg ótrúlegur skilningur á því sem hér er verið að ræða, einfaldlega vegna þess að það er ekki verið að tala um að niðurgreiða neinar hækkanir á olíu og bensíni. Það er verið að tala um að minnka tímabundið skattheimtu ríkisins til að mæta þeim miklu hækkunum sem við horfum upp á.

Eldsneytisverð hefur hækkað geysilega og því miður virðist líta út fyrir að sú hækkun verði ekki tímabundin. Hún gæti orðið varanleg. Það veit þó enginn enn þá og við, þingmenn Samfylkingarinnar, sem stöndum að þessu frumvarpi til laga, erum einfaldlega að segja: Tökum mesta sársaukann úr þessari miklu hækkun á olíuverði á heimsmarkaði og gefum okkur tíma til að komast að því hvort hér er um varanlega hækkun að ræða eða hvort hún er tímabundin. Tökum aðeins á með bíleigendum og fólkinu í landinu og léttum aðeins þá sáru nauð sem hið háa olíu- og bensínverð er fyrir hvern og einn.

Við viljum sem sagt bregðast við. Við viljum ekki bara sitja og horfa á þetta og segja: Ja, ríkissjóður er þvílíkt skrímsli og þvílíkt tröll að það er ekki hægt að hnika þeim sjóði úr sporunum jafnvel þó að upp komi aðstæður sem enginn sá fyrir, jafnvel þó að upp komi aðstæður sem þýða að skattgreiðendur þessa lands borgi meira í skatta og gjöld en þeir annars hefðu gert.

Það vill svo til, frú forseti, að bíleigendur og þeir sem ferðast um þjóðvegi landsins eru að verða einn skattpíndasti hópur á Íslandi. Það virðist vera sem embættismönnum eða stjórnmálamönnum sem ráða sköttum og gjöldum detti í raun afskaplega fátt í hug annað en að gráupplagt sé að hækka aðeins gjöldin á þessa aumingja sem eiga bíla og nota þá til að komast á milli staða. Þessi hópur er í rauninni enginn annar en landsmenn allir, allir fullorðnir einstaklingar á Íslandi sem greiða skatta, langflestir þeirra eru líka bíleigendur. Við sjáum það þegar við komum í fjölbrautaskóla og framhaldsskóla landsins að unga fólkið þar, 17 ára og eldra, er meira og minna allt saman komið á einkabíl og verið er að skattpína þann hóp ekki síður en þá sem eldri eru.

Að okkar viti þurfum við að skoða allar færar leiðir til að hafa áhrif á vísitölu neysluverðs um þessar mundir. Hvað segja talsmenn ríkisstjórnarinnar þegar talað er um verðbólgu? Hvað segja talsmenn ríkisstjórnarinnar þegar talað er um vísitölu neysluverðs? Jú, þeir segja: Það er engin verðbólga á Íslandi ef við lítum fram hjá tvennu, hækkun húsnæðisverðs og hækkun olíuverðs. En það vill nú þannig til að fyrir alla þá sem hafa tekið lán, og ég vil minna á að heimilin á Íslandi eru með þeim skuldugustu í heimi og uppistaðan af þeim lánum eru verðtryggð, að einmitt þessi hækkun á olíuverði og húsnæðisverði hefur lyft vísitölu neysluverðs verulega hratt upp undanfarið, sem þýðir einfaldlega að lán hjá fólki hækka á sama tíma vegna hækkunar olíuverðs og íbúðaverðs. Ég tel það skyldu okkar að reyna að bregðast við á einhvern mögulegan hátt. Þarna eigum við möguleika. Ríkið er að skattpína bíleigendur. Ríkið leggur há gjöld á olíu og bensín. Við getum brugðist við tímabundið ef við viljum og lagt í aðgerðir eins og þær sem hér er verið að leggja til, að lækka þessi gjöld um 5 kr. á lítra meðan þetta gengur yfir.

Mér þykir sárt að horfa upp á þetta meðvitundarleysi stjórnvalda sem yppa öxlum og segja: Ja, þetta er bara að hækka, heimsmarkaðsverð er að hækka. Við heyrðum hv. þm. Pétur Blöndal koma í pontu áðan og segja: Þetta er eitthvað sem við ráðum ekkert við. En við ráðum við verðið hér, á Íslandi, og getum haft áhrif á hvert endanlegt útsöluverð til neytenda verður.

Hv. þm. Pétur Blöndal sagði líka í andsvari að bílaskattarnir gengju nú til vegamála þannig að við yrðum að hafa einhverja peninga í það. Einnig var bent á það í andsvari að heildarskattar á bíleigendur og umferð eru um 40 milljarðar kr. á ári. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2006 segir að í stofnkostnað og viðhald á árinu 2006 eigi að fara 10,3 milljarðar. Þetta voru 13 milljarðar á árinu 2004 en á árinu 2006 eiga samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar að fara í viðhald og stofnkostnað á þjóðvegakerfi landsins 10,3 milljarðar. Breyting frá ríkisreikningi árið 2004 er 21% lækkun á sama tíma og öll þessi gjöld eru að rjúka upp. Er ekki í lagi að koma til móts við þá sem nota þessi mannvirki fyrst ekki er verið að leggja meira til viðhalds og stofnkostnaðar á árinu 2006 og lækka aðeins það sem menn greiða?

Það vill þannig til, eins og bent hefur verið á áður í umræðunni, að hæstv. ríkisstjórn hefur farið áður þá leið sem við erum að leggja til. Einmitt vegna þess að um var að ræða verulega hækkun á eldsneytisverði fór ríkisstjórnin þá leið að lækka krónutöluna á lítra til að ná þessu aðeins niður tímabundið. Ég held að allir hafi verið mjög sáttir við þá aðgerð og hún hafi komið öllum vel sem þurfa á því að halda að kaupa bensín eða olíu.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2006 er talsverður kafli um vörugjald af bensíni, olíugjald og kílómetragjald. Þar segir að í forsendum frumvarpsins sé gert ráð fyrir því að olíugjaldið á hvern dísillítra hækki úr 41 kr., sem það er í dag, í 45 kr. frá og með 1. janúar 2006. Við erum því ekki að öllu óbreyttu að tala um 41 kr. sem við viljum lækka í 37 kr. heldur ætlar ríkið 1. janúar 2006 að hækka aftur úr 41 kr. í 45 kr., burt séð frá því hvert olíuverðið verður.

Það er annað sem kemur fram í skýringum með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2006. Ég ætla að leyfa mér að lesa það, með leyfi forseta. Þar segir:

„Í tengslum við lögfestingu tímabundinnar lækkunar olíugjalds var tekið fram að bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald kynnu að verða stillt frekar af innbyrðis áður en gildistími tímabundinnar lækkunar olíugjalds rennur út um næstu áramót, þó þannig að miðað væri við að tekjur ríkissjóðs héldust þær sömu og samkvæmt eldra kerfi. Áætlaðar tekjur af bensíngjaldi, olíugjaldi og kílómetragjaldi gætu því breyst innbyrðis.“

Hvað er ríkisstjórnin að segja okkur með þessu í sínu eigin fjárlagafrumvarpi? Jú, að hægt sé að hreyfa þessa hluti til, það sé engin goðgá að hreyfa þessa hluti til. Reyndar segir hún hér: Við verðum að gera þetta innbyrðis þannig að heildartekjur ríkissjóðs vegna þessa lækki ekki.

Gott og vel. Þarf þá ekki að skoða hvort líklegt sé að sú áætlun sem gerð er um tekjur ríkissjóðs af þessum liðum standist fyrir árin 2005 og 2006 eða hvort gera megi ráð fyrir að tekjurnar gætu kannski orðið meiri en gert er ráð fyrir í forsendum fjárlaga? Þegar maður skoðar slíka hluti getur maður í raun ekki gert neitt annað, frú forseti, en að fara í söguna og velta fyrir sér hvernig þessi gjöld hafa verið að þróast og hvers má vænta miðað við aðstæður eins og þær eru núna á Íslandi.

Það er nefnilega þannig að í tíð núverandi ríkisstjórnar, sérstaklega síðustu þrjú, fjögur ár, virðist það vera lenska í fjárlagagerð að vanáætla tekjur verulega. Tekjur hafa alltaf aukist verulega frá fjárlögum, tekjur hafa meira að segja aukist frá lokafjárlögum þangað til komið er í ríkisreikning.

Ef við horfum á skatta af vöru og þjónustu og öll þau gjöld sem við erum að tala um hér eru innan þess flokks í fjárlögunum, þá voru skattar af vöru og þjónustu fyrir árið 2005 áætlaðir í fjárlögunum 148,7 milljarðar kr. Niðurstaðan á þessu ári samkvæmt nýjustu áætlun fjármálaráðuneytisins er að þessar tekjur verði 158,1 milljarður kr. Með öðrum orðum, tekjur af sköttum af vöru og þjónustu fyrir árið 2005 verða 10 milljörðum kr. hærri en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. Er þá ekki svolítið svigrúm, má ekki ætla að það sé svolítið svigrúm til að bregðast við þessum miklu hækkunum á olíuverði á heimsmarkaði?

Í greinargerð með frumvarpinu segir að tekjutap ríkisins vegna lækkunar á bensíngjaldi, eins og hér er verið að leggja til, ásamt lækkun á virðisaukaskattstekjum, yrði um 378 millj. kr. og tekjutap vegna lækkunar á olíugjaldinu um 166 millj. kr. eða rétt um hálfur milljarður kr. í það heila. Þetta er það sem við flutningsmenn frumvarpsins viljum leggja til núna strax til að slá á þetta háa olíu- og bensínverð og til að leggja okkar af mörkum þó lítið sé í þessu tilliti til að lækka vísitölu neysluverðs. Það segir að verðlagsáhrifin af þessu gætu orðið í kringum 0,2% í vísitölunni en eldsneytið vó um 5,3% í vísitölugrunninum í september.

Það sem hér um ræðir er einfaldlega spurning um vilja. Er vilji til þess innan stjórnarliðsins að bregðast við aðstæðum sem uppi eru og koma til móts við bíleigendur, þennan skattpíndasta hóp landsins og koma aðeins til móts við þá vegna þess hve eldsneytisverðið hefur verið að hækka mikið á heimsmarkaði? Í mínum huga er þetta svo einfalt. Er einhver vilji til þess að lækka bensínlítrann og olíulítrann um 5 kr. núna eða ekki? Ég sé ekki að þetta sé spurning um hvort ríkissjóður hafi efni á að gera þetta, vegna þess að eins og ég fór yfir hér áðan, ef við skoðum þróun þessara skatta og gjalda í ríkissjóðs þá sýnist mér ríkissjóður fullhaldinn af þeim gjöldum og þeim hækkunum sem hafa orðið á þeim umfram það sem áætlað hefur verið.

Ef ríkissjóður er svona illa haldinn í þeirri þenslu og góðæri sem ríkt hefur að mati sumra, a.m.k. hefur ríkt veruleg þensla í tekjuhlið ríkisins — það er gaman að velta því fyrir sér og skoða hver breytingin hefur í raun verið á tekjum ríkisins á undanförnum árum. Hvað er það sem hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hefur úr að spila við það að reka þjóðfélag okkar og deila þessu út á milli þegna landsins? Skoðum þróunina eins og hún hefur verið, förum til ársins 1998 því að þar getum við borið saman á sömu forsendum tekjur ríkisins eins og þær urðu á árinu 1998 og síðan eins og þær eru áætlaðar núna á árinu 2005. Á hverjum einasta degi ársins 1998, jafnt virka daga sem helga, komu í ríkissjóð tekjur upp á 634 millj. kr. Alveg sama hvort það var helgur dagur eða virkur, 634 millj. kr. á hverjum einasta degi og þykir manni það nú talsverð upphæð.

En hvað hefur gerst frá 1998 til 2005, á sjö ára tímabili — á sama verðlagi? Berum saman krónu á móti krónu. Tekjur ríkisins hafa á hverjum einasta degi hækkað úr því að vera 634 milljónir í það að verða 838 milljónir á dag. Þetta er veruleg hækkun sem skýrist að hluta til af því að skattheimta á Íslandi hefur verið að aukast. Hún hefur verið að aukast á þessum tíma sem hlutfall af landsframleiðslu og hefur aldrei verið meiri en stefnir í núna. Þetta er nú sannleikurinn um skattalækkanir ríkisstjórnarinnar eins og þær liggja fyrir vegna þess að eins og við höfum bent á í umræðum oft og iðulega að jafnvel þó að verið sé að koma með tillögur um að lækka tekjuskatt um 1% og taka hátekjuskattinn af þá hefur það einfaldlega verið tekið annars staðar og m.a. í þeim gjöldum sem hér er um að ræða.

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan lít ég á þetta frumvarp okkar sem prófraun á það hvort einhver vilji sé hjá ríkisstjórninni til að taka á með íbúum landsins til að mæta þeirri miklu hækkun sem orðið hefur á lífsnauðsynlegri vöru, sem allir þurfa á að halda til að komast á milli staða, olíu og bensín. Vilji er allt sem þarf. Og þar sem við erum ábyrg í afstöðu okkar og þar sem við viljum koma fram með tillögur sem eru ábyrgar og raunhæfar þá gerum við eingöngu tillögu um að gera þetta í mjög stuttan tíma til að byrja með. Tökum örfáa mánuði og léttum á fólki meðan við erum að skoða og sjá hvernig þetta kemur til með að þróast á heimsmarkaði. Bíðum líka til áramóta og sjáum hvað ríkissjóður fær meira í tekjur en ráð var fyrir gert í fjárlagafrumvarpinu og skoðum það með hliðsjón af því hvort ekki sé rétt að minnka skattheimtuna á bensín og olíu, því að það sem hér er verið að leggja til er ekki niðurgreiðsla á heimsmarkaðsverði á olíu. Það sem verið er að leggja til er að minnka skattheimtu á það fólk sem þarf að kaupa olíu og bensín á Íslandi.