132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Bensíngjald og olíugjald.

30. mál
[11:44]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi hefur olíuverð hækkað mikið til skammtíma út af fellibyljum og slíku og óróa í heiminum en svo hefur það líka hækkað til langtíma varanlega út af ástandinu eða efnahagsþróuninni í Kína og Indlandi. Sú hækkun gengur ekki til baka. Hækkun vegna fellibyljanna hefur nú þegar gengið til baka vegna þess að í greinargerð með frumvarpinu stendur að verðið hafi hækkað úr 97 kr. upp í 121,50 kr. Það er liðin tíð því að verðið er aftur komið niður í 108 eða 109 kr. Ég sá það í morgun þegar ég keyrði fram hjá bensínstöð. Sú sveifla er því liðin hjá, frú forseti. Það er hins vegar sveiflan sem er vegna ástandsins í Indlandi og Kína sem ég tel varasamt að niðurgreiða.

Ég endurtek aftur að hlutur ríkissjóðs í olíuverði og bensínverði er krónutala, sérstakur skattur á olíuverð og bensínverð er krónutala og sú krónutala er um 55 kr. á báðum tegundum og það hefur ekkert breyst. Hlutur ríkissjóðs fer því minnkandi. Eins og kom fram í svari hæstv. fjármálaráðherra til mín á þskj. 1356 á síðasta þingi hefur hlutur ríkissjóðs farið minnkandi hlutfallslega þannig að það er ekki við ríkissjóð að sakast um þessa hækkun sem er á bensínverði.

Þegar ríkisstjórnin ákvað að lækka olíuverð fyrir einu eða tveim árum tímabundið þá var það til að taka af kúf en sá kúfur er liðinn núna. Hann var mjög snöggur og gekk hratt yfir og hann er liðinn. Ég tel því að þetta frumvarp sé algjör óþarfi í dag.

Svo langar mig til að spyrja hv. þingmann af því að í flokki hans eru ýmsir umhverfissinnar og ég veit að ýmsir umhverfissinnar kjósa þann flokk: Hvernig (Forseti hringir.) lítur hann á það að fara að niðurgreiða olíu og auka umhverfismengun?