132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Bensíngjald og olíugjald.

30. mál
[11:48]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur mikinn vilja til að bæta kjör landsmanna og sérstaklega skattgreiðenda. Hún er búin að lækka fjöldann allan af sköttum, tekjuskatta, erfðafjárskatta og maður kemst ekki yfir að nefna það. Henni er umhugað um hvernig þegnarnir hafa það.

Hins vegar tel ég ekki rétt að minnka krónutöluskatt á bensíni í þeirri stöðu sem er í dag. Ég tel það ekki rétt af því að þá værum við að niðurgreiða varanlega hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu og bensíni, sem ég tel nokkuð varasamt.

Hv. þingmaður nefndi einnig í ræðu sinni, sem ég ætla að koma inn á líka, að lán væru verðtryggð hjá einstaklingum og þau hafi hækkað. Það er rétt, þau hafa hækkað um 4%, aðallega út af hækkun á íbúðaverði. Þessi lán standa yfirleitt alltaf á móti íbúðaverði þannig að ef við tökum dæmi um 20 millj. kr. íbúð þá hefur hún hækkað um 7 milljónir, 7–8 milljónir á síðasta ári, ósköp venjuleg íbúð á 20 milljónir, á meðan lánin hafa ekki hækkað nema um 800 þús. kr. Þetta er því ekki gott dæmi til að taka um að staða einstaklinga hafi versnað því að hún hefur snarbatnað vegna þess að aðalhækkun vísitölunnar er vegna hækkunar á íbúðaverði sem eykur eignir allra landsmanna sem eiga eigið húsnæði. Þau dæmi sem hér hafa verið nefnd eru því ekki nægilega góð.

Ég tel að sú hækkun sem þetta frumvarp er sett í gang út af sé gengin yfir og verðið hefur lækkað aftur niður í 108 eða 109 kr., maður sér það á bensínstöðvunum. (Gripið fram í.) Það er reyndar allt of hátt, við vonumst til að það lækki en ég hygg að því miður muni eftirspurnin í Kína og Indlandi halda því verði uppi.