132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Bensíngjald og olíugjald.

30. mál
[11:51]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að skattar væru að lækka á Íslandi og það er alveg rétt að verið er að lækka ákveðna skatta í prósentutölu og slíku. En þegar maður fer yfir heildarsviðið og skoðar skattheimtu ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu þá hafa skattar á Íslandi ekki verið að lækka heldur hafa þeir verið að hækka. Ef við horfum á hvað er að marka myndina sem dregin er upp í fjárlagafrumvarpi hverju sinni, eins og t.d. fjárlagafrumvarpinu árið 2006, og skoðum hvað gerðist árið 2005 þá er talað um að verið sé að reyna að halda hækkun á tekjum ríkissjóðs að einhverju leyti niðri. En það sem gerist bara aftur og aftur, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, þá er ekkert að marka fjárlögin þegar þau koma fram. Ég tók dæmi um skatta á vöru og þjónustu, í fjárlögunum var gert ráð fyrir að þeir væru tæpir 149 milljarðar á þessu ári en nú segja menn að þeir verði um 158 milljarðar eða 9 milljörðum kr. hærri. Þetta er veruleg hækkun frá því sem fyrst var áætlað í fjárlagafrumvarpinu og þetta eru engar gervikrónur, þetta eru krónur sem koma til með að renna í ríkissjóð.

Varðandi áhrif olíuverðsins á vísitölu neysluverðs og verðtryggingu lána þá er það rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að íbúðaverð hefur verið að hækka verulega, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Mikið af þessari hækkun hefur verið drifin af lánum, það hefur verið betra aðgengi að lánsfé og margir hafa tekið mun hærri lán en þeir áður hefðu tekið til þess annaðhvort að endurfjármagna íbúðir sínar eða kaupa sér nýjar. Það sem mun gerast ef íbúðaverð fer lækkandi aftur er að lánin munu standa eftir, lánin sem hækkað hafa með verðtryggingunni munu standa eftir. Þau munu ekkert lækka jafnvel þó að íbúðaverð lækki. Við skulum því spyrja að leikslokum, hv. þingmaður, í þessu efni áður en við förum að tala um gróða íslenskra fjölskyldna af því að húsnæðisverð hafi hækkað.