132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Lífeyrisréttindi hjóna.

33. mál
[12:13]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er hreyft afskaplega mikilvægu máli. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir endalausa þrautseigju við að flytja þetta mál. Ég held að það sé orðið tímabært að Alþingi samþykki þessa þingsályktunartillögu vegna þess að hún hefur mikið gildi.

Ég held að það hafi verið árið 1976 eða 1977 sem þáverandi hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson flutti frumvarp, sem ég vann með honum á þeim tíma, um Lífeyrissjóð Íslands. Þar gerðum við ráð fyrir því að áunnin lífeyrisréttindi hjóna og sambúðarfólks í sambúðinni kæmu til skipta við skilnað og skiptust á báða aðila, en ekki bara við skilnað heldur almennt á meðan á sambúðinni stæði. Þessi hugsun er því ekki ný og að sjálfsögðu er þetta réttlætismál.

Hins vegar er þetta ákveðið vandamál. Íslenskir lífeyrissjóðir eru allir bundnir starfsstéttum og starfsgreinum, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna, Lífeyrissjóður flugmanna o.s.frv., og þar af leiðandi er erfitt fyrir þá að taka inn réttindi fólks sem ekki er í viðkomandi starfsstétt vegna þess að það getur verið annars konar áhætta. Þótt iðgjöldin til lífeyrissjóðanna séu ekki háð áhættunni, en ættu að vera það, þá er annars konar áhætta hjá sjómönnum en hjá verslunarmönnum.

Segjum að konan sé sjómaður og karlmaðurinn verslunarmaður, svo að maður snúi hefðbundinni starfsskiptingu dálítið við, en svo skilji þau. Þá ætti karlmaðurinn allt í einu að eignast rétt í Lífeyrissjóði sjómanna og konan ætti þá rétt í Lífeyrissjóði verslunarmanna. En auðvitað er þetta eitthvað sem við ættum að geta ráðið við. Þar sem við erum með skylduaðild allra að lífeyrissjóðum þá ætti að vera hægt að koma þessu við eins og öðru.

Ég er jafnundrandi og hv. þingmaður, 1. flutningsmaður tillögunnar, á áhugaleysi kvenna á þessu máli vegna þess að þetta er jú aðallega málefni kvenna. Það eru þær sem fara halloka í flestum tilvikum svona yfirleitt. Yfirleitt eru þær frekar heima við yfir börnum og yfirleitt hafa þær, því miður, enn þá lægri laun og þar af leiðandi lakari lífeyrisrétt. Við skilnað finnst mér að það væri sjálfsagt, eins og menn skipta hlutabréfum, fasteignum, búslóð, bíl o.s.frv., að þessum fjárhagslega ávinningi eða fjárhagslegu eign manna í lífeyrisjóðunum sé skipt.

Maður spyr sig: Af hverju stafar þetta áhugaleysi? Ég trúi ekki að það sé vegna þess að hv. þingmenn sem eru kvenkyns hafi ekki áhuga á því að skipta lífeyrisréttindum sínum með maka sínum. Það held ég að geti ekki verið. Ég held að það sé frekar þannig að fólk reikni yfirleitt ekki með því, þegar það er gift eða í sambúð, að til skilnaðar komi. Annars væri það varla í sambúð. Það er kannski það sem veldur áhugaleysi þeirra á þessu máli.

Áhugaleysið gæti einnig verið hluti af þeirri einstaklingshyggju sem kristallaðist í umræðum, sérstaklega vinstri manna, eiginlega allra, um öryrkjamálið. Þeir vildu líta á einstaklinginn en ekki fjölskylduna, sem er dálítið merkilegt því að vinstri menn eru yfirleitt ekki einstaklingshyggjufólk. Þeir vildu líta á einstaklinginn burt séð frá tekjum makans. Það getur vel verið að þetta sé angi af því að líta á einstaklinginn. Kannski hætta menn bráðum að skipta eignum við skilnað og hver haldi sinni eign. Kannski endar það þannig að menn fari að senda reikning fyrir morgunkaffinu til konunnar sinnar eða öfugt eftir því hvort lagði út fyrir því, að einstaklingshyggjan verði svo mikil. Þá þarf ekki að skipta neinum eignum. (Gripið fram í: Þá verður nú gaman að lifa.) Ég segi það nú ekki.

Ég tel fjölskylduna merkilegri en svo. Ég held að fjölskyldan sé afskaplega merkilegt fyrirbæri. Hún er tryggingastofnun, mjög náin og mjög sterk og sennilega sú sterkasta í heimi. Ef það gengur illa hjá einum fjölskyldumeðlimi þá grípa allir undir. Það þekkja allir.

En ég styð þessa tillögu eindregið og skora á nefndina sem fær það til umsagnar að vinna hratt og vel í því. Hins vegar mætti breyta textanum örlítið.

Það ætti þá að segja:

„Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd er kanni hvort rétt sé að tryggja með lögum rétt hjóna til hlutdeildar í lífeyrisréttindum maka við skilnað sem áunninn er í hjónabandinu.“

Svo mundi ég að sjálfsögðu líka leggja til að inn í tillöguna yrði tekin „sambúð“, í takt við nýja tíma.