132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Göngubrú yfir Ölfusá.

38. mál
[12:34]
Hlusta

Flm. (Kjartan Ólafsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um úttekt á gerð göngubrúar yfir Ölfusá við Selfoss. Meðflutningsmenn mínir á þessari tillögu eru hv. þingmenn Drífa Hjartardóttir Guðjón Hjörleifsson.

Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta meta kosti þess að gera göngubrú yfir Ölfusá við Selfoss og meta kostnað við slíka framkvæmd. Úttekt á framkvæmdinni og kostnaðarmat liggi fyrir 1. janúar 2006.“

Þessari litlu tillögu fylgir svolítil greinargerð sem ég ætla aðeins að kynna hér, frú forseti:

„Í þessari tillögu er lagt til að Alþingi feli samgönguráðherra að láta meta kosti þess að gera göngubrú yfir Ölfusá við Selfoss og meta kostnað við slíka framkvæmd. Lagt er til að úttektin og kostnaðarmat liggi fyrir 1. janúar 2006.“

Þegar Ölfusá var upphaflega brúuð við Selfoss árið 1891 — sem þá var nefnt Ölfusá og lengi fram eftir í daglegu tali var talað um að fara út að Ölfusá en nafnið Selfoss kom síðar til — myndaðist strax byggð sunnan árinnar og þar er meginíbúðabyggð nú auk þess sem aðalatvinnustarfsemin hefur verið sunnan árinnar.

Þó hefur alla tíð verið nokkur íbúðabyggð norðan Ölfusár og má ætla að um 200 íbúar sem tilheyra Selfossi búi þar, auk íbúa úr Árbæjarbyggð í Ölfusi. Atvinnurekstur hefur einnig verið norðan árinnar í fjölda ára og hefur Sláturfélag Suðurlands verið fjölmennasti vinnustaðurinn. Hin síðari ár hefur atvinnurekstur norðan Ölfusár aukist og ætla má að nú séu um 250–300 störf í þeim fyrirtækjum sem á því svæði eru. Þá hefur sveitarfélagið Árborg skipulagt stærra svæði norðan Ölfusár fyrir atvinnustarfsemi. Einnig má benda á að Hellisskógur, sem er eitt aðalútivistarsvæði Selfoss, er einmitt norðan Ölfusár.

Með síaukinni umferð um Ölfusárbrú, ekki hvað síst þungaflutningum, er ljóst að þrengt hefur verið að gangandi umferð á brúnni. Því miður hafa oftsinnis orðið óhöpp við handrið sem aðskilur gangandi vegfarendur og ökutæki á Ölfusárbrú en hingað til hafa ekki orðið slys á fólki en segja má að handriðið hafi meira og minna verið brotið og einnig allar festingar sem hafa haldið því frá því að brúnni var breytt með þeim hætti sem hún er í dag.

Nú hefur um alllangt skeið legið fyrir í aðalskipulagi að ný brú yrði byggð yfir Ölfusá við Laugardæli og þar með yrði þungaflutningum beint norður og austur fyrir Selfoss. Þessi brú er enn ekki komin á samræmda samgönguáætlun, en vegna mikillar umferðaraukningar mun þess líklega ekki langt að bíða. Þar sem ný brú við Laugardæli er ekki væntanleg allra næstu ár má ætla að göngubrú yfir Ölfusá við Selfoss sé brýnt verkefni þar sem umferð gangandi vegfarenda hefur aukist verulega á þessu tímabili.

Þó að ný brú komi verður samt sem áður þörf fyrir göngubrú yfir Ölfusá við núverandi brúarstæði, það er alveg ljóst. Þess má jafnframt geta að oftsinnis er Ölfusárbrú í raun einbreið þegar um er að ræða þungaflutninga sem fara í gegnum Selfoss. Þá þarf að loka brúnni og lögreglan kemur þar yfirleitt til, þá er brúin einbreið. Svo það er brýnt að bætt verði úr samgöngum við Selfoss. Ég legg til, frú forseti, að að lokinni umræðu verði þessari þingsályktunartillögu vísað til samgöngunefndar.