132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Göngubrú yfir Ölfusá.

38. mál
[12:42]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Mikið rétt, frú forseti, þetta er mikið öryggismál og hagsmunamál, um það deilum við ekki og erum örugglega sammála um að þetta er eitt af mikilvægum byggðamálum á þessu svæði, það er ekki spurning. En allt tengist þetta og hangir saman, þetta er allt ein samfelld voð, samgönguframkvæmdir á hverju svæði fyrir sig og þær ber að skoða í einhvers konar samhengi. Þess vegna vildi ég spyrja hv. 1. flutningsmann að þessari tillögu hvort hann teldi ekki að ef farið væri út í að byggja slíka göngubrú núna, að setja hana í forgang, hvort það gæti hugsanlega — bara til að skoða allar hliðar málsins — orðið til þess að fresta byggingu nýrrar Ölfusárbrúar. En eins og hann nefnir stendur það til einhvern tíma í framtíðinni, af því að rétt eins og kom fram á fundinum sem ég nefndi hérna áðan með stjórn Sambands sunnlenskra sveitarfélaga núna fyrir nokkrum dögum síðan í hinni svokölluðu kjördæmaviku þingmanna, þá leggja bæjarstjórnarmenn á þessu svæði mikinn þunga á að fyrirhugaðri brúarbyggingu verði flýtt sem kostur er.

Þess vegna vil ég bara til að gæta varúðar og til að eitt þvælist ekki fyrir öðru spyrja hv. 1. flutningsmann hvort það gæti ekki þvælst fyrir brúarsmíðinni eða frestað henni um allt of langan tíma af því að þetta er mikilvægt mál, ef göngubrú yrði gerð nú. En um leið lýsi ég því yfir að það er sjálfsagt að fara í mat á kostum slíkrar brúarframkvæmdar en þetta á að skoðast í samhengi og þetta á að ræðast í samhengi af því að ef þunginn flyst af einu og yfir á annað þá getur það orðið til þess að fresta kannski því sem mikilvægara er.