132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Göngubrú yfir Ölfusá.

38. mál
[12:45]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka flutningsmanni fyrir að hafa komið fram með þessa þingsályktunartillögu sem í sjálfu sér er hið ágætasta mál. Hins vegar hlýt ég líka að verða að skamma þá sem flytja þetta mál, hv. þingmenn Kjartan Ólafsson, Drífu Hjartardóttur og Guðjón Hjörleifsson, fyrir að hafa gert þetta með þessum hætti. Ég er einn af þeim tíu þingmönnum sem eru fyrir Suðurkjördæmi og reynsla mín á þeim stutta tíma sem ég hef verið á þingi, þau tvö ár, hefur kennt mér að þegar við þingmenn Suðurkjördæmis náum árangri í samgöngumálum þá er það þegar við göngum í takt. Þá höfum við náð árangri. En hér er allt í einu komin þingsályktunartillaga um samgöngubætur í kjördæminu, ágætismál sem ég styð í sjálfu sér, allt í lagi með það, en kemur eins og fjandinn úr sauðarleggnum.

Ég hef ekki heyrt um að þetta mál væri í undirbúningi, ekki einu sinni þegar við vorum á fundi á Selfossi í fyrradag, í kjördæmavikunni, með fulltrúum sveitarfélaga í kjördæminu þá var ekki minnst á þetta einu einasta orði. Ég verð að segja að slík vinnubrögð valda mér vonbrigðum. En að sjálfsögðu er fólki frjálst að leggja fram þingmál, ef menn vilja hafa þennan hátt á verður bara svo að vera.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Kjartan Ólafsson hvort það sé svo að þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi viti eitthvað sem við hin vitum ekki, því að ég hnýt um texta í greinargerð í lokin þar sem segir:

„Þar sem ný brú við Laugardæli er ekki væntanleg allra næstu ár má ætla að göngubrú yfir Ölfusá við Selfoss sé brýnt verkefni …“ o.s.frv., vitnað hér til með leyfi forseta.

Eru hv. þingmenn með þessu að segja að það sé alveg klárt mál að ekki standi til að byggja nýja brú yfir Ölfusá næstu árin?