132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Fjölgun og staða öryrkja.

[14:16]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda, hv. þm. Helga Hjörvar, fyrir að færa þetta málefni, fjölgun og stöðu öryrkja, til utandagskrárumræðu á Alþingi. Hann fór ágætlega yfir ýmsa alvarlega meinbugi á málum öryrkja.

Þannig er, virðulegi forseti, að við búum ekki lengur í stéttlausu þjóðfélagi þar sem aðstæður fólks eru svipaðar heldur er að myndast hyldjúp gjá milli þjóðfélagshópa. Fréttir berast af margra milljóna eða milljarða hagnaði sumra á meðan aðrir eiga vart til hnífs og skeiðar. Bilið milli ríkra og fátækra eykst stöðugt og raunar eru þeir sem eiga erfitt uppdráttar ekki einungis þeir sem eru háðir lífeyri til framfærslu. Margt venjulegt fólk á lágum launum lifir við að ekkert má út af bera án þess að það sligist fjárhagslega.

Atvinnumál öryrkja hafa mikið verið í umræðunni frá því í vor í kjölfar skýrslu á vegum hæstv. heilbrigðisráðherra þar sem fram kom að öryrkjum hefði fjölgað mjög á Íslandi síðustu ár. Skýringarinnar á þeirri fjölgun var fyrst og fremst leitað í því að hagstætt væri fyrir öryrkja að vera á örorkubótum.

Vísast endurspeglar fjölgun öryrkja á undanförnum árum að kröfur atvinnurekenda hafa orðið stífari. Há arðsemiskrafa atvinnulífsins virðist hafa ýtt fólki út af vinnumarkaðnum. Harðnandi samkeppni á atvinnumarkaði bitnar ávallt fyrst á þessum hópi.

Í umræðum um skýrsluna var rætt um að það hlyti að vera næg atvinna í boði, fyrst við erum að flytja inn erlent vinnuafl í störf sem fólk hér á landi nennti ekki að sinna. Ég held að öryrkjar fari ekki að vinna í fiskvinnslu eða við Kárahnjúka af augljósum ástæðum. Hins vegar langar mig að lokum að vekja athyglina á þessu með tekjutengingu bóta. Við í Frjálslynda flokknum teljum að fólk eigi að hafa frelsi til að hjálpa sér sjálft á eigin forsendum og að lífeyrir, jafnvel örorkulífeyrir líka, eigi ekki að þurfa að skerðast svo mjög ef fólk vill sýna sjálfstæða viðleitni og leita sér tekna með því að vinna.