132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Fjölgun og staða öryrkja.

[14:23]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þá mikilvægu pólitísku yfirlýsingu sem hann gaf áðan, um að bensínstyrkir til hreyfihamlaðra, öryrkja og aldraðra verði ekki skertir. Af þessu tilefni vil ég óska Öryrkjabandalagi Íslands til hamingju. Ég óska Landssambandi eldri borgara til hamingju. Þetta er árangurinn af baráttu þeirra. Málið hefur einnig verið tekið upp á þingi og nú hefur hæstv. ráðherra svarað þeim óskum og kröfum á jákvæðan hátt.

Við eigum enn eftir að skoða önnur atriði sem lúta að kjörum öryrkja. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir því sem kallað er hagræðing, sem er fínt nafn á niðurskurði. Við eigum eftir að fara nánar í saumana á því.

Að öðru leyti vil ég þakka hv. málshefjanda, Helga Hjörvar, og taka undir áherslurnar í máli hans. Ég vil nefna þrennt: Í fyrsta lagi segir hann að hin sorglega fjölgun öryrkja eigi ekki að vera afsökun eða ástæða fyrir því að skerða kjör þeirra eða svíkja samninga sem við þá eru gerðir. Það er því miður rangt sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að staðið hafi verið við samninga sem gerðir hafi verið við Öryrkjabandalag Íslands. Það hefur ekki verið staðið við samninginn sem var gerður í aðdraganda kosninganna 2003. Það er staðreynd og hefur oftar en einu sinni verið sýnt fram á það hér á þingi.

Í öðru lagi vil ég taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Helga Hjörvars, um samhengi á milli nýgengi örorku annars vegar og atvinnuástandsins hins vegar. Í máli hæstv. ráðherra kom fram að nú hefði hægt á fjölgun öryrkja. Ég vek athygli á því að á sama tíma hefur dregið úr atvinnuleysi.

Í þriðja lagi vil ég taka undir þær áherslur hv. þm. Helga Hjörvars að við eigum að beina sjónum okkar að starfsendurhæfingu og viðhorfi á vinnumarkaði. Það þarf að draga úr hinni grimmu samkeppnis- og gróðahyggju sem kemur í bakið á öryrkjum þessa lands.