132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Fjölgun og staða öryrkja.

[14:28]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Lýðræðið virkar. Þegar við í fjárlaganefndinni sáum tillögu í fjárlagafrumvarpinu um að svipta ætti hreyfihamlaða bensínstyrknum þá held ég að menn úr öllum flokkum hafi orðið undrandi og ekki síður félagar mínir hjá Öryrkjabandalaginu. En sú umræða sem síðan hefur farið fram í þinginu og einkum hjá þjóðinni hefur augljóslega orðið til þess að horfið hefur verið frá þeim fráleitu skerðingarhugmyndum að afnema bensínstyrk hreyfihamlaðra. Ég fagna því og þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa tekið af skarið um þetta og dregið tillöguna til baka. En ég minni hann á að hefði hann gætt samráðs um þessa hugmynd þá hefði hann aldrei sett hana fram í upphafi. Við hefðum getað verið laus við þetta karp og gefið okkur að meira skapandi verkefnum í þinginu.

Það er engin ástæða til að skerða bætur öryrkja. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur staðfest það í umræðunni að hér eru öryrkjar færri en í nágrannalöndum okkar og útgjöld okkar sem þjóðar til örorkubóta minni en í nágrannalöndum okkar. Það sem við höfum séð gerast er einfaldlega að þróunin á vinnumarkaði er farin að líkjast því sem var á hinum Norðurlöndunum fyrir mörgum árum síðan. Þess vegna þurfum við að huga að því að bæta kjör öryrkja og vinna að því af áhuga að skapa öryrkjum aðstæður til að hasla sér aftur völl á vinnumarkaði, með því að styðja þá með starfsendurhæfingu, með hjálpartækjum og þá einkum að hætta hinum óhóflegu tekjutengingum sem draga mjög sjálfsbjargarviðleitnina úr mönnum.

Ég bið hæstv. ráðherra þess lengstra orða að endurskoða þá reglugerðarbreytingu sem gerð var í síðasta mánuði sem á að leiða til þess að öryrkjar fái ekki greiddar bætur í nóvember og desember, hafi þeir verið of duglegir við að afla sér tekna á vinnumarkaði í ár.