132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Fjölgun og staða öryrkja.

[14:30]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Upp úr stendur kannski eitt atriði sem ég er sammála og það er að efla þurfi starfsendurhæfingu. Það var akkúrat það sem ég átti við með þeim orðum að kannski þyrfti að endurskoða hið læknisfræðilega mat, þ.e. að áður en farið er í það eigi viðkomandi kost á starfsendurhæfingu. Það var það sem ég átti við með því. Við erum sammála um þetta.

Ég hef aldrei haldið því fram að fólk gerist öryrkjar að gamni sínu. Hins vegar er fjölgunin hér örari en í nágrannalöndunum og við verðum að velta því fyrir okkur af hverju sú þróun stafar. Starfsendurhæfingin er að mínu mati lykilatriði í því.

Ég endurtek það sem ég sagði að þrátt fyrir skrykkjótt samskipti við Öryrkjabandalagið á stundum þá hefur verið beðið um samráð og ég er allur af vilja gerður til þess. Hins vegar hefur óneitanlega stundum slest upp á vinskapinn en ég vona að svo verði ekki áfram.

Ég vil undirstrika það að skýrslan margumtalaða, sem kom út í vor, er að mínu mati ekki áróðursskýrsla. Hún dregur fram skoðanir Hagfræðistofnunar Háskólans á þessu máli. Hún var ekki gerð í áróðursskyni heldur til þess að draga fram staðreyndir og ég tel að það hafi gert umræðunni gagn. En ég vísa því algerlega á bug að við séum með því að segja að fólk fari á örorkubætur að óþörfu og að gamni sínu.

Að lokum þakka ég svo fyrir þessa umræðu.