132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

45. mál
[16:08]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að koma í þennan ræðustól og taka undir meginefni þess frumvarps sem hér er til umræðu, um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það er auðvitað nauðsynlegt að reyna nýjar leiðir til að taka á því mannréttindabroti sem tíðkast hefur lengi, að greiða konum og körlum mismunandi laun fyrir sömu eða sambærileg og jafnverðmæt störf. Mér telst svo til að sennilega á næsta ári séu 40 ár liðin síðan sett voru lög sem áttu að taka af allan vafa um að óheimilt væri að greiða konum og körlum mismunandi laun fyrir sömu og sambærileg störf. Frá þeim tíma hafa verið reyndar ýmsar leiðir til að taka á þessu máli en það verður að segjast eins og er, eins og við þekkjum, að því miður gengur þetta afar hægt þó að árangur hafi náðst. Hér er því verið að reyna nýjar leiðir sem ég tel fyllilega réttmætt að setja í lög. Mér finnst rökstuðningurinn vera réttur sem settur er fram hvað varðar réttmæti þess að Jafnréttisstofa fái heimild til að krefja opinberar stofnanir, sveitarfélög og atvinnurekendur almennt og félagasamtök um gögn og upplýsingar til að leiða það í ljós ef um er að ræða launamisrétti. Og það að bera þetta saman við þær heimildir sem skattyfirvöld, Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlitið hafa finnst mér alveg rökrétt vegna þess að Jafnréttisstofa er út af fyrir sig ákveðinn eftirlitsaðili með því að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé fylgt.

Ég vil einnig taka undir það sem hv. framsögumaður, 8. þm. Reykv. n. nefndi um það þingmál sem hér hefur verið flutt á þingi undir forustu Sivjar Friðleifsdóttur, að mér kom það mjög á óvart og ég vil draga fram ástæðuna fyrir því. Þar er um að ræða að beina því til ríkisstjórnarinnar að koma á nefnd sem á að vinna gegn kynbundnum launamun og þeirri nefnd er m.a. ætlað að vinna að áætlanagerð og aðgerðum til að minnka launamun kynjanna.

Nú vill svo til að á 130. löggjafarþingi var til umræðu framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára til að ná fram jafnrétti kynjanna. Þar náðist óvanalega góð þverpólitísk samstaða milli allra flokka á þingi, en það mál fór til meðferðar í félagsmálanefnd þar sem Siv Friðleifsdóttir er formaður. Þar náðist m.a. fram að tekin var efnislega inn í framkvæmdaáætlunina tillaga sem þingmenn Samfylkingarinnar höfðu flutt um að gerð væri framkvæmdaáætlun til að ná fram launajafnrétti kynjanna. Sú aðgerðaáætlun eða framkvæmdaáætlun sem næstum orðrétt var sett inn í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir tveimur árum, hafði það markmið að ná fram fullu launajafnrétti kynjanna í samræmi við ákvæði 14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Gera átti tvær framkvæmdaáætlanir, annars vegar fyrir opinberan vinnumarkað og hins vegar fyrir almennan vinnumarkað og vinna þær í samráði við aðila vinnumarkaðarins og Samband ísl. sveitarfélaga. Þar átti að setja fram tímaáætlanir um aðgerðir og m.a. var heimilt að beita 22. gr. jafnréttislaga, en það er ákvæði sem hefur gengið undir heitinu jákvæð mismunum. Það átti að gera að undangenginni rannsókn á launamun kynjanna og öðrum þáttum launakjara þar sem átti að taka allt inn í sem kveðið er á um í 14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þ.e. að taka inn allar yfirborganir, duldar greiðslur og fleiri þætti.

Þingið hefur því raunverulega ýtt því úr vör með samstöðu allra flokka á þingi undir forustu félagsmálanefndar sem beitti sér fyrir því að þetta mál og efnisatriði þessarar tillögu yrðu sett í áætlun ríkisstjórnarinnar, að farið er að vinna raunverulega eftir því sem hv. þingmaður, formaður félagsmálanefndar, er núna að kalla eftir að sett verði á fót og eigi að vinna í næstu fimm árin. Það kom mér mjög sérkennilega fyrir sjónir að þetta mál yrði sett fram með þessum hætti. Þess vegna tek ég undir það sem hv. þingmaður sagði áðan um það efni.

Ég vil enn fremur nefna, sem er hreinlega rökstuðningur fyrir því hversu nauðsynlegt er að Jafnréttisstofa fái þær heimildir sem hér er verið að kalla eftir, að ég beitti mér fyrir nánari úttekt á sínum tíma þegar Ríkisendurskoðun setti fram skýrslu þar sem fram kom álit eða úttekt hennar á svokölluðum viðbótarlaunum hjá opinberum starfsmönnum. Þar voru vísbendingar um að viðbótarlaun sem forstöðumenn stofnana ákveða rynnu í mun meiri mæli til karla en kvenna. Ég bað um nánari úttekt á þessu hjá Ríkisendurskoðun og slík úttekt var gerð opinber. Í þeirri úttekt kom fram að af 17.000 starfsmönnum ríkisins fengu u.þ.b. 3.400 viðbótargreiðslur og konur fengu 56% af þeim viðbótargreiðslum. Leiddar voru líkur að því í úttekt Ríkisendurskoðunar að þessar viðbótargreiðslur rynnu til um 1.100 starfsmanna og fékk sá hópur greiddar 443 milljónir í viðbótarlaun, þar sem 284 milljónir runnu til karla en 159 milljónir til kvenna, þannig að af þeirri summu sem fór í þetta, sem er beinlínis ákvörðunarefni forstöðumanna einstakra stofnana, fengu konur aðeins lítinn hluta af þessum greiðslum.

Mér fannst þarna vera vísbending um að það væri verið að brjóta jafnréttislög, að opinberar stofnanir brytu jafnréttislög og ekki væri gætt jafnræðis í þessum viðbótargreiðslum. Því sendi ég fyrir hönd míns þingflokks málið til Jafnréttisstofu og óskaði eftir því að hún kannaði frekar þetta mál. Jafnréttisstofa fór vissulega í vinnu við málið. Hún tók sér nokkra mánuði í það og þegar hún hafði kannað málið og byggt á þeim gögnum sem fram komu hjá Ríkisendurskoðun í þessu máli þá var niðurstaða hennar sú að vissulega væru þarna vísbendingar um að verið væri að brjóta jafnréttislög. En Jafnréttisstofa taldi sig þurfa að fá frekari upplýsingar til þess að geta tekið af allan vafa í því efni, þó að þarna væru verulegar vísbendingar á ferðinni. Jafnréttisstofa hafði heldur ekki þær heimildir sem verið er að kalla eftir með þessu frumvarpi. Hefði hún haft slíkar heimildir hefði hún getað farið alveg til botns í þessu máli. Það skiptir auðvitað verulegu máli þegar svona kemur upp að slíkt sé til staðar. Um þessar viðbótargreiðslur eru ekki til neinar samræmdar reglur og raunverulega hefur fjármálaráðuneytið og Ríkisendurskoðun greint á um það hvort yfirleitt sé heimild til slíkra viðbótarlaunagreiðslna. Fjármálaráðherra vísar ávallt til þess þegar ég hef verið að spyrja um hvort ekki þurfi að ná einhverju samkomulagi við opinbera starfsmenn um hvernig á þessu máli verði haldið og það hefur ekki náðst. Hér er staddur formaður BSRB þannig að hann ætti kannski að geta upplýst um það. Meðan ekki eru til samræmdar reglur um þetta og Ríkisendurskoðun viðurkennir að þessar greiðslur séu í gangi — þetta skiptir hundruðum milljóna og þetta gengur frekar til karla en kvenna — þá er verið að viðhalda hér launamismun að mínu viti. Ég hefði viljað að við gætum sammælst um þetta og þá ekki síst að forusta BSRB skýri af hverju ekki sé búið að ná þeirri samstöðu sem þarf að vera um hvernig að þessum viðbótarlaunagreiðslum er staðið. Meðan þetta rennur svona þá gengur launamisréttið áfram.

Ég vil líka nefna annað sem rökstyður það að þetta tæki sem hér er verið að kalla eftir ætti að vera fyrir hendi. Ég leiddi í ljós með fyrirspurn hérna fyrir nokkrum árum meðan bankarnir voru í ríkiseign að verulegur launamunur viðgengist innan bankanna í formi greiðslu fyrir bílakostnað. Það voru svo sannarlega leidd rök að því að þar viðgengist launamisrétti dulbúið í formi bifreiðastyrks. Í úttekt sem var þar gerð og Jafnréttisstofa kom að var leitt í ljós að þetta voru karlar og konur sem voru í nákvæmlega sömu störfum en karlarnir höfðu bílastyrk og konurnar miklu lægri og í sumum tilvikum ekki. Þar sagði Jafnréttisstofa beinlínis, eða hvort það var Jafnréttisráð á þeim tíma, að verið væri að brjóta jafnréttislög og bönkunum var falið að gera breytingar í þessu efni. En það var aldrei hægt að fá neinn botn í hvort bankarnir hefðu brugðist við í þessu efni og reyndar neituðu þeir því þrátt fyrir að Jafnréttisráð teldi að slík brot tíðkuðust innan bankanna.

Ég er hér að leiða fram að það er afar mikilvægt að Jafnréttisstofa fái þær heimildir sem hún þarf sem eftirlitsaðili með því að jafnréttislög séu ekki brotin og að hún fái þá heimildir sem eru til staðar hjá þeim eftirlitsstofnunum sem við höfum í þjóðfélagi okkar.

Í tengslum við kvennafrídaginn núna hefur mikið verið rætt um að afnema þurfi þá launaleynd sem ríkir í þjóðfélaginu. Ég býst við og tel að líka þurfi að taka á þessu með víðtækari hætti en hér er lagt til til þess að afnema allt sem viðheldur launaleyndinni. Lögfræðingar hafa sagt að þetta sé raunverulega lagabrot og að tryggja þurfi þetta betur, þ.e. að ekki sé verið að gera einstaklingsbundna samninga við launþega sem viðhaldi þessari launaleynd. Málið þarf því að skoðast með víðtækari hætti en hér er lagt til þó að þetta sé vissulega mjög mikilvæg leið, eins og ég hef reynt að varpa ljósi á og sett rök fram fyrir, til þess að stuðla að launajafnrétti.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa frekari orð um þetta frumvarp. Þetta mál kemur inn í nefnd sem ég á sæti í og ég mun leggja mitt af mörkum til þess að það verði ekki svæft og hljóti afgreiðslu og komi aftur inn í þingsali þannig að hægt verði að taka efnislega afstöðu til þess.