132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

45. mál
[16:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég leyfi mér að hafa allan vara á með að skrifa upp á þann árangur sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir hafa náðst í Reykjavíkurborg á síðari hluta tíunda áratugarins við að rétta kjaramun kynjanna. Þar vísa ég m.a. til rækilegrar úttektar sem var gerð í tímaritinu Veru ekki alls fyrir löngu. Ef horft er á kjaramuninn almennt, á milli þeirra sem hafa hin lægstu laun og þeirra sem hafa hæstu laun, þá hef ég nú trú á að sá munur hafi aukist, enda voru því miður uppi svipaðar áherslur og hugmyndir í borginni og í fjármálaráðuneytinu í tíð fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, Friðriks Sophussonar, þegar við sem störfuðum og störfum í samtökum launafólks reyndum að fá því framgengt að borg og ríki skrifuðu upp á að um öll launakjör yrði samið á félagslegum grunni. Bæði borgin og fjármálaráðuneytið neituðu að verða við þessu. Þetta var af okkar hálfu liður í tilraun til að draga úr duttlungagreiðslum, þ.e. greiðslum sem forstöðumenn eða forstjórar stofnana ákvörðuðu á eigin vegum. Hluti af þessu voru síðan deilurnar sem geisuðu í þingsal árið 1996 um 9. gr. starfsmannalaganna, þar sem kveðið var á um heimild forstöðumanna til að greiða að eigin geðþótta. Það er reyndar núna komið inn í samninga sem ég tel mjög til hins verra.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vék að umframgreiðslum og vitnaði í skýrslugerð í því efni. Ég held að staðreyndin sé sú að óumdeilt er að greiðslur af þessu tagi hafa verið í þágu karla fremur en kvenna. Það er sums staðar, ég held að ekki sé hægt að alhæfa um þetta, verið að reyna að draga úr þessu. Ég er alveg sannfærður um að barátta eins og við höfum orðið vitni að nú að undanförnu, þar sem þjóðin, ekki bara kvenþjóðin heldur öll þjóðin, skrifar upp á þann ásetning sinn að launamisrétti verði útrýmt, verði til að ýta á eftir slíku.

En forsenda þess að þetta nái fram að ganga er að aflétta launaleyndinni. Í þessu frumvarpi er bæði vísað í almennar upplýsingar og sértækar upplýsingar. Það er talað um opinbera aðila, ríkið, sveitarfélög, félagasamtök og fyrirtæki. Að því leyti eru þær tillögur sem eru í þessu frumvarpi nýlunda, að þvinga á einkamarkaðinn til að upplýsa líka um launakjör. Það er nokkuð sem ég tel eðlilegt og mjög æskilegt, að þetta tæki verði fært Jafnréttisstofu til að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla.

Varðandi almennar upplýsingar um launakjör hjá hinu opinbera ætti ekki að þurfa að setja nein lög af þessu tagi. Samkvæmt upplýsingalögum og skýringum sem fylgja þeim lögum er ætlast til þess að upplýsingar um almenn kjör, þ.e. föst kjör, grunnlaun og fastar greiðslur, hvort sem það eru bílapeningar, ökutækjastyrkur eða föst yfirvinna, séu opinberar upplýsingar. Samkvæmt þessum lögum á hver og einn að geta nálgast upplýsingar um þetta. Það er aðeins breytileg vinna sem á að geta farið leynt ef menn óska eftir því. En hitt á að vera opið.

Það hefur hins vegar reynst útilokað fyrir samtök launafólks að fá því framgengt að þetta verði sett upp á borðið, hafi á annað borð verið tregða handan borðsins, hjá atvinnurekandanum. Það er hin almenna regla hjá ríki og sveitarfélögum í seinni tíð, að neita að upplýsa um launakjör. Þá er vandinn sá að einstaklingur, til að fá þetta fram, þyrfti að höfða mál og það er ekki alveg hlaupið að því. Ég get upplýst að BSRB hefur reynt að ýta á eftir slíkum málum hjá tilteknum stofnunum þar sem starfsmannafélögin hafa óskað eftir upplýsingum en úrskurðarnefnd um upplýsingamál — ég man ekki alveg hvað hún heitir, þ.e. hvert tækniorðið er en ég held hún heiti það — neitaði að styðja við bakið á verkalýðsfélaginu í þeirri viðleitni, sem ég tel harla undarlegt.

Það hefur verið rætt að menn fari í málsókn út af þessu og láti á þetta reyna fyrir dómstólum þótt ákvörðun hafi ekki verið tekin um það. En ég tel mjög brýnt að stuðla að því að launaleynd verði aflétt, hvort sem er hjá opinberum stofnunum, hjá stofnunum ríkis, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum, eða á einkamarkaði. Þetta frumvarp, ef að lögum yrði, væri mikilvægt tæki í jafnréttisbaráttunni. Ég tel að það mundi einnig gagnast í baráttunni fyrir því að jafna kjörin almennt í landinu.