132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

45. mál
[16:39]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði áðan að ég teldi þetta mikilvægt tæki sem eftirlitsstofnuninni Jafnréttisstofu væri fengið í hendur til að fylgjast með og rannsaka hvort um lögbrot væri að ræða þegar kemur að launajafnrétti kynjanna. Þetta tæki upphefur hins vegar ekki launaleynd. Hér er ekkert sem segir að það sé ekki hægt að viðhafa launaleynd eftir sem áður, þ.e. að einstaklingarnir, eins og er í dag, undirgangist það hugsanlega í samningum sínum við atvinnurekendur að mega ekki gefa upp þau laun sem þeir hafa. Hins vegar getur eftirlitsstofan farið og skoðað málin. En hin almenna launaleynd gæti eftir sem áður verið við lýði. Ég held að það þurfi að taka á því með sérstökum hætti. Ég vildi í fyrsta lagi segja þetta.

Í öðru lagi vil ég segja að mér finnst heldur miður, af þingmanni Vinstri grænna, að vilja ekki horfast í augu við það, sem var þó sannarlega skoðað og gerð úttekt á, að sá árangur náðist frá árinu 1995–2001 að hinn óútskýrða launamun sem verið hafði milli kynjanna og var ekki hægt að útskýra með neinu öðru en kynferði hjá Reykjavíkurborg — það koma auðvitað alls konar breytur inn í myndina, eins og vinnutími, starfsaldur o.s.frv. — að þann launamun tókst að helminga á þessu árabili, þ.e. frá 1995–2001. Og það er merkilegt að geta ekki einu sinni sætt sig við það þegar einhver árangur næst, að fagna honum og byggja á honum, í stað þess að reyna að gera sem minnst úr þeim ávinningi.