132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

45. mál
[16:43]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Launaleyndinni er aflétt gagnvart tiltekinni stofnun sem er Jafnréttisstofa. Það er hins vegar þá og því aðeins að Jafnréttisstofa fari, annaðhvort að eigin frumkvæði að rannsaka mál eða vegna þess að henni berst kæra upp í hendurnar að hún fer af stað. Við getum ekki gert ráð fyrir því að Jafnréttisstofa velti við pappírum í öllum fyrirtækjum sem eru með fólk í störfum og hafa nú þegar sveipað launin slíkri leynd.

Hið mikilvæga, sem Samfylkingin mun taka fyrir og beita sér fyrir í þinginu, er að réttur fólks til að segja frá því sem það hefur í laun sé ótvíræður og verði ekki af því tekinn. Þannig geti fólk á degi hverjum, konur og karlar, borið sig saman í launum og vitað hvað næsti maður, sem starfar við þeirra hlið, hefur í laun. Þetta tel ég að verði að vera ótvírætt. Ég mun, eins og ég sagði, beita mér fyrir því að slíkt mál verði flutt í þinginu þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa um rétt sinn til að segja frá því hvað hann hefur í laun.

Svo ítreka ég að ég vísaði til könnunar sem var gerð frá árinu 1995–2001. Það kann vel að vera að launamunurinn hjá Reykjavíkurborg hafi aukist eins og víða annars staðar í samfélaginu á undanförnum árum, það kann vel að vera. En hvernig það kemur út gagnvart kynjunum veit ég ekki hvort við getum fullyrt um í þessum ræðustól.