132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Þjónusta barna- og unglingageðlækna.

[15:11]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst svara varðandi sérfræðilækna almennt. Kerfi þeirra er þannig að þegar þeir eru búnir með einingarnar fara þeir inn á afsláttarkerfið og það er útlit fyrir að niðurstaða náist í þeim málum.

Ég vil víkja sérstaklega að barnalæknunum því þeir hafa sérstöðu varðandi það að bætt var við þá einingum fyrir nokkrum árum vegna þess að við vildum efla þessa starfsemi. Síðan nýttu þeir ekki einingarnar, og einingar voru teknar af þeim, þetta er alveg rétt. Síðan hefur þróunin verið sú á þessu ári að þeir munu væntanlega nota kvóta sinn. Við höfum verið með það í sérstakri athugun. Ég hef lýst því yfir og ég vil að menn njóti þjónustu á þessu sviði. Ég vona að við náum niðurstöðu í það. Meðal annars hafa verið forföll í hópi barnalækna þannig að álagið á þeim hefur verið nokkuð mikið. Við viljum athuga þeirra mál sérstaklega. Þeir hafa sérstöðu að þessu leyti. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni og við gerum okkur alveg grein fyrir því.