132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Þjónusta barna- og unglingageðlækna.

[15:13]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mér þykir ágætt að heyra að hæstv. heilbrigðisráðherra er sammála því sem ég færi fram. Það er bara samt þannig að hæstv. ráðherra svaraði barnageðlæknum þann 10. september og lýsti þá yfir nákvæmlega því sama og hann lýsir yfir hér. Það sama gerir landlæknir og það sama gerir Tryggingastofnun. Allir hafa fullan skilning. Það eru allir afar fullir af miklum velvilja gagnvart málinu og allir ætla að láta reyna á einhvers konar breytingar. En það er bara orðinn of langur tími sem þessir læknar hafa þurft að bíða, og foreldrar og aðstandendur þessara barna sem bíða eftir þessari þjónustu. Ég held að við verðum að fá nánari útlistanir frá hæstv. ráðherra og yfirlýsingu um það hreinlega hvað eigi að gera og hvenær eigi að gera það.