132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Þjónusta barna- og unglingageðlækna.

[15:15]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég treysti því að þessi orð hæstv. ráðherra þýði að gripið muni verði til þeirra aðgerða sem þarf, þ.e. að þessir barnasérfræðingar fái aftur þær 200 þús. einingar sem þeir höfðu 2003. Það er alveg ljóst að sá einingafjöldi virðist nægja en það gera 160 þús. einingar hins vegar ekki.

Varðandi síðan að forföll hafi orðið hjá læknum í greininni veit ég að Tryggingastofnunin er farin að draga af reikningum frá barna- og unglingageðlæknum. Þetta er komið til framkvæmda að einhverju leyti. Læknar úti á landi segja mér að þeir séu komnir í þrot þannig að ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. ráðherra grípi til aðgerða núna strax. Það er gott að heyra um velviljann og það er gott að heyra að málið sé til athugunar en það þarf bara að grípa til aðgerða, leiðrétta þetta og tryggja að það verði þá leiðrétting til frambúðar.