132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Hafrannsóknastofnun.

[15:16]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hafrannsóknastofnun er 40 ára þetta árið og það er rétt að óska starfsmönnum til hamingju með afmælið.

Það verður samt að segjast eins og er að uppbygging þorskstofnsins síðustu tvo áratugina hefur ekki gengið eftir þó svo að mestmegnis hafi verið farið eftir ráðgjöf stofnunarinnar síðustu 15 árin. Veiðin síðustu 20 árin hefur verið helmingi minni en áratugina þar á undan. Það hefur verið mikil gagnrýni á árangursleysi fiskveiðiráðgjafar Hafró og einnig þá staðreynd að stofnunin hefur endurmetið þorskstofninn og hrygningarstofninn áratugi aftur í tímann og hagrætt gögnum.

Einnig hefur verið gagnrýnt að stofnunin hefur einokað rannsóknir á fiskifræði á síðustu árum og ég ætla þess vegna að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann hyggist breyta því og veita þá fleirum aðgang að rannsóknum að fiskifræði. Ég tel fulla þörf á því. Ég var sjálfur eftir hádegi staddur um skamma hríð á ráðstefnu um stærð hrygningarstofns og áhrif hans á nýliðun og það verður að segjast eins og er að mjög mikil vonbrigði fólust í viðdvölinni þar. Þangað var eingöngu boðið þeim sem voru fylgjandi kenningum stofnunarinnar þó svo að hér sé um mjög umdeilt mál að ræða. Gögn frá m.a. Færeyjum sýna að hér sé um öfugt samband að ræða. Stofnunin býður ekki til þeirrar gagnrýnu umræðu, nei, þangað er eingöngu boðið jáurum sem fylgja stefnu stofnunarinnar. Þetta væri allt í lagi ef um væri að ræða áróðursstofnun en hérna er óvart um vísindastofnun að ræða sem ætti einmitt að fagna allri gagnrýni og taka hana til umræðu í stað þess að halda henni fyrir utan umræðuna. Mér finnst þetta mjög ámælisvert og það verður fróðlegt að fá að heyra skoðun hæstv. sjávarútvegsráðherra á þessum vinnubrögðum.