132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Hafrannsóknastofnun.

[15:21]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er því miður um sértrúarhóp að ræða sem hleypir ekki öðrum skoðunum að. Mér finnst alvarlegt að nýr hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála komi ekki hér ferskur með nýjar hugmyndir í stað þess að ætla að halda í gömlu kenningarnar. Hann trúir því að þarna hafi verið á boðstólum allar skoðanir um nýliðun og samband hennar við hrygningarstofn. Þetta er auðvitað óþolandi og það á ekki heima í vísindalegri umræðu að menn skuli halda ákveðnum skoðunum í burtu. Mér finnst þetta fáheyrt og ég trúi því ekki að Íslendingar ætli að halda þessu áfram.

Hvers vegna notar ekki sjálf stofnunin 40 ára afmælið til að gera eitthvað nýtt í stað þess að halda í kenningar sem hafa ekki gengið eftir í tvo áratugi? Það er óþolandi og við sem erum hér í forsvari fyrir þjóðina eigum ekki að sætta okkur við þetta, (Forseti hringir.) hvað þá hæstv. sjávarútvegsráðherra.