132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Hafrannsóknastofnun.

[15:22]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vona að þegar hv. þingmaður á næst leið til Færeyja greini hann forstjóra hafrannsóknastofnunarinnar í Færeyjum frá því að hann sé í sértrúarhópi sem hafi ekki neina skoðun nema þá sem er talin lögmæt á Íslandi, hann sé ekki maður til að taka sjálfstæða vísindalega afstöðu.

Það væri líka fróðlegt að hv. þingmaður heimsækti stofnanir í Kanada og segði mönnum frá því að þar væru þeir algerlega í vasanum á forstjóra Hafrannsóknastofnunar og íslenska sjávarútvegsráðherranum, þeir hefðu enga sjálfstæða skoðun, að menn sem hafa skoðað samband hrygningarstofns og nýliðunar úti um allan heim væru menn sem hefðu fengið skipanir frá sjávarútvegsráðuneytinu íslenska allan sinn vísindalega feril og það væri ekkert að marka þá vegna þess að þeir væru hluti af einhverjum sértrúarsöfnuði sem væri stjórnað héðan frá Íslandi, þar á meðal forstjóri færeysku hafrannsóknastofnunarinnar sem núna á eftir heldur erindi sitt um stöðu þorskstofnsins við Færeyjar.

Ég veit að hv. þingmaður hefur verið sérstakur áhugamaður um stöðu mála í Færeyjum og þess vegna hefði verið gaman að hann hefði gefið sér tíma til að hlusta á þetta í stað þess að fara fram (Forseti hringir.) með tómt fleipur og tómt rugl.