132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Hafrannsóknastofnun.

[15:23]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég hafna því algerlega að ég hafi farið fram með tómt fleipur og tómt rugl. Það er óvart þannig að ég hef verið í ágætum tengslum við færeyska stjórnmálamenn sem hafa sem betur fer, (Gripið fram í.) hæstv. ráðherra, ekki farið eftir ráðleggingum Hjalta í Jákupsstovu, þess manns sem hæstv. sjávarútvegsráðherra vitnar svo mjög til. En í Færeyjum er ekki farið eftir ráðleggingum færeysku hafrannsóknastofnunarinnar og hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti að vita þetta. Færeyskir sjómenn hafa farið eftir ráðleggingum Jóns Kristjánssonar fiskifræðings og mér finnst leitt ef hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlar að drepa þessari umræðu á dreif með hreinni vitleysu. Mér finnst það óþolandi. Ég skora á hæstv. ráðherra að nota nú tækifærið sem nýr ráðherra í þessum málaflokki og skoða ferilinn. Þetta hefur ekki gengið upp síðustu 20 árin, og hvernig er að halda áfram einhverri vegferð sem hefur ekkert gengið?