132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

4. fsp.

[15:31]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður þarf ekkert að segja mér neitt um það að það eru margar hæfar konur á Íslandi sem eru virkilega tilbúnar til þess að sitja í stjórnum fyrirtækja og hafa sýnt það og komið sér á framfæri opinberlega einmitt í því skyni að komast í stjórnir fyrirtækja. En það er auðvelt fyrir hv. þingmann að koma hér upp og segja að það hljóti að vera hægt að grípa til einhverra aðgerða. Sú tillaga sem hv. þingmaður las hér upp er ekki samin af mér, hún er samin af þeirri nefnd sem ég skipaði. Ég tel að það sé mikilvægt að vinna þetta mál þannig áfram núna að fara í samstarf, t.d. við háskóla og við viðskiptalífið um framhaldið. Þetta vinnst ekki öðruvísi en með umræðu og því að karlmenn átti sig á tækifærunum sem felast í því að skipa konur í stjórnir fyrirtækja. Það hefur sýnt sig að það ber góðan árangur.