132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Breytt skipan lögreglumála.

[15:48]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að biðja um þessa umræðu í dag. En í dag hefjast einmitt kynningarfundir sem efnt verður til á sjö stöðum um landið á næstu tíu dögum til að kynna tillögur um stækkun lögregluumdæma. Það er þriggja manna framkvæmdanefnd um þessar breytingar sem efnir til fundanna og boðar til þeirra lögreglustjóra, lögreglumenn og sveitarstjórnarmenn. Þar geta menn rætt einstaka þætti þessa máls.

Þegar ég tók við embætti dómsmálaráðherra vorið 2003 hafði um nokkurt skeið verið rætt um nauðsyn þess að stækka lögregluumdæmin. Það voru einkum lögreglumenn sem hvöttu til þeirra breytinga til að þeir yrðu betur í stakk búnir til að takast á við erfiðari verkefni en áður. Hvert skref sem stigið hefur verið í þessu máli undir minni stjórn hefur verið kynnt rækilega bæði á fundum og í skýrslum sem hafa verið tiltækar á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Hefur verið mikill áhugi á þessum gögnum og nú síðast tillögum framkvæmdanefndarinnar frá 24. október síðastliðnum. En þær tillögur á einmitt að kynna næstu daga á fundum um land allt. Að loknum fundunum mun ég athuga þau sjónarmið sem þar koma fram eða þær ábendingar sem ráðuneytinu berast eftir öðrum leiðum og síðan taka lokaákvörðun af minni hálfu í málinu.

Samkvæmt tillögum framkvæmdanefndarinnar er nauðsynlegt að gera breytingu á lögreglulögunum og þess vegna kemur málið til kasta Alþingis ef farið verður að tillögunum. Tillögur framkvæmdanefndarinnar gera í stuttu máli ráð fyrir að lögregluumdæmin verði 15 í stað 26. Samkvæmt þeim flyst stjórn löggæslu alfarið frá minnstu sýslumannsembættunum til nærliggjandi embættis auk þess sem eitt lögreglulið verður á höfuðborgarsvæðinu. Af lögregluembættunum 15 fá sjö hlutverk lykilembættis, sem annars vegar sinnir rannsókn og saksókn stærri og flóknari mála og hins vegar samræmir vaktkerfi lögreglunnar í umdæmi sínu. Lögreglumenn flytjast að sjálfsögðu ekki frá núverandi stafsstöðvum sínum þótt þeir verði hluti af stærri liðsheild.

Samkvæmt lögum um störf sýslumanna, þ.e. lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, er hlutverk sýslumanna að fara með stjórnsýslu ríkisins eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um. Þar á meðal fara þeir með lögreglustjórn, tollstjórn og innheimtu opinberra gjalda að því leyti sem hún er ekki falin öðrum. Lögum samkvæmt þurfa ekki allir sýslumenn að vera lögreglustjórar. Þannig fer sýslumaðurinn í Reykjavík hvorki með lögreglu- né tollstjórn. Það fer eftir lögum og reglugerðum hvaða verkefni eru falin sýslumönnum hverju sinni og þeir geta sinnt mismunandi verkefnum, eins og sést af því nýlega dæmi að ég hef falið sýslumanninum á Blönduósi að taka að sér að reka innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar fyrir landið allt.

Vegna fyrirspurnar hv. þingmanns vil ég árétta að ekki er gert ráð fyrir því að lögreglumenn hópist á þá staði þar sem lögreglustjóri situr heldur gegni þeir áfram störfum í þeim starfsstöðvum sem þeir hafa. Hér á höfuðborgarsvæðinu verður hverfa- og grenndarstarfi lögreglu að sjálfsögðu sinnt áfram af hálfu lögreglunnar. Með því að stækka lögregluumdæmi og auka og efla samvinnu lögreglumanna innan hvers umdæmis er að því stefnt að efla og styrkja sýnilega löggæslu. Auðveldara verður að manna sólarhringsvaktir þótt ekki takist það alls staðar. Fámennir staðir munu hafa gagn af stærra liði við sérstök tilefni, t.d. á bæjarhátíðum eða í tengslum við íþróttaviðburði. Þá verða fjölmennari og öflugri rannsóknardeildir til taks heima í héraði vegna rannsókna á stórum og flóknum málum.

Vegna breytinganna á hvergi að draga úr löggæslu. Hv. fyrirspyrjandi nefnir fimm staði og má taka Patreksfjörð sem dæmi. Þar eru nú fjórir lögreglumenn og þeim verður ekki fækkað. Ég held að þeir græði frekar en að þeir tapi á því að verða hluti af stærra lögregluliði með öflugri rannsóknardeild.

Hv. þingmaður nefndi einnig Siglufjörð. Þannig vill til að sýslumaðurinn á Siglufirði telur raunar ekki nógu langt gengið með þessum tillögum. Hann vill eitt lögreglulið á öllu Norðurlandi. En með þessum breytingum erum við ekki að breyta landfræðilegum staðreyndum. Við gerum það ekki með stækkun lögregluumdæmanna. Við gerum hins vegar ráðstafanir til að bæta öryggi landsmanna með virkari og öflugri löggæslu.