132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Breytt skipan lögreglumála.

[15:53]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að taka þetta mál upp. Ég tel mjög mikilvægt að ræða það hér á hinu háa Alþingi á því stigi sem málið er núna. Öllum sem hafa kynnt sér þessar hugmyndir er ljóst að um verulegar breytingar er að ræða. Við megum aldrei, í þessari umræðu, útiloka nokkurn skapaðan hlut heldur verðum við að taka hugmyndirnar og ræða um þær eins og þær koma fyrir.

Það sem vekur sérstaka athygli í þessari umræðu er hve lítið sveitarstjórnarmenn hafa fengið að koma nálægt þessum málum. Ég veit að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu voru að ræða þessi mál í hádeginu og hafa miklar áhyggjur af því að ráðast eigi í slíkar breytingar án nokkurs samráðs við sveitarstjórnarmenn. Ég veit að þeir hafa verið boðaðir til fundar 17. nóvember næstkomandi. En þeim hefur verið tilkynnt að hæstv. dómsmálaráðherra hafi fallist á meginstefnuna í þeim hugmyndum. Að loknum þeim fundi á síðan að tilgreina nánar hvernig þær verði útfærðar. Ég tel mjög miður að menn skuli leggja þetta upp með þeim hætti.

Í skýrslunni sem nefndin skilaði af sér er lítið útfært hvernig þetta eigi að vera og því skiptir miklu máli hvernig það verður gert. Það hefur t.d. vakið ugg í Vestmannaeyjum að færa eigi fjármagn frá sýslumannsembættinu í Vestmannaeyjum yfir á Selfoss. Menn óttast að það sé fyrsta skrefið í að færa störfin til. Ég held að það sé mjög mikilvægt að áður en umræðan fari fram liggi skýrt fyrir á hvaða (Forseti hringir.) ferðalagi hæstv. dómsmálaráðherra er. Það er mikilvægt að haft verði samráð við sveitarstjórnarmenn um málið.