132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Breytt skipan lögreglumála.

[15:55]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að hafa í huga við þessa umræðu að málið er ekki enn þá komið á það stig að það sé á borðum þingsins. Það er enn þá í meðförum ráðherra sem hefur haft samráð við lögreglumenn og sýslumenn um mótun tillagna sem nú fara í kynningu, m.a. meðal sveitarstjórnarmanna og væntanlega mun ráðherra leggja fram frumvarp fyrir þingið í framhaldi af því, þegar hann hefur gaumgæft þær athugasemdir sem fram koma í málinu.

Ég held þó að óhætt sé að segja að ég tek undir meginmarkmið þeirra breytinga sem stefnt er að, að auka skilvirkni lögregluliðsins og efla rannsóknarþátt lögreglunnar. Ég held að menn verði að fallast á að það er nauðsynlegt að skoða breytingar á umdæmum lögreglunnar til að ná þeim markmiðum fram. Breytingar á samgöngum á undanförnum árum og áratugum gera það að verkum að menn geta ekki afmarkað sig með sama hætti og áður var. Menn verða auðvitað að taka mið af breyttum tíma.

Ég tek undir það sem fram kemur í tillögum framkvæmdanefndarinnar, að það er skynsamlegt að mynda sem breiðasta samstöðu um þær tillögur sem að lokum verða bornar fram og að fremur verði tekin fleiri skref en færri í þá átt sem menn vilja stefna. Ég held, virðulegi forseti, að menn þurfi t.d. að skoða stöðu sýslumannsembættanna. Þau munu, ef þetta nær fram að ganga, verða mjög mismunandi. Sum hafa lögreglustjórn með höndum en önnur ekki og þau sem ekki hafa lögreglustjórn með höndum munu líka vera mismunandi vegna breytilegra verkefna.

Ég hygg að það muni ráða úrslitum um hve vel gengur að hrinda tillögum af þessum toga í framkvæmd, hvort sem þær verða nákvæmlega eins og gert ráð fyrir í tillögum framkvæmdanefndar eða ekki, hversu vel tekst til með verkefnaflutning til einstakra sýslumannsembætta. Ég hygg að það sé lykilatriði sem hæstv. (Forseti hringir.) ríkisstjórn verður að ná góðri niðurstöðu um.