132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Breytt skipan lögreglumála.

[15:57]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að taka þetta mál til umræðu og taka undir þá skoðun hans að nauðsynlegt sé að hafa samráð við sveitarstjórnir og íbúa svæðanna þar sem breytingar standa fyrir dyrum.

Ég vil einnig nota tækifærið hér og þakka öðrum manni, hæstv. dómsmálaráðherra, fyrir að flytja verkefni til Blönduóss. Þá á ég við innheimtu sekta og sakarkostnaðar. Þetta er í samræmi við stefnu okkar í Frjálslynda flokknum, að eðlilegt sé að opinber verkefni séu einnig unnin á landsbyggðinni.

En við í Frjálslynda flokknum höfum miklar efasemdir um þessar boðuðu breytingar á skipan löggæslumála. Við óttumst sérstaklega að ekki verði tekið tillit til landfræðilegra aðstæðna. En það sem einkennir þessa vinnu og ýmsa aðra vinnu er að þegar leitað er eftir hagræðingu og samlegðaráhrifum í stjórnsýslunni er alltaf leitað til hinna dreifðu byggða í stað þess að líta til höfuðborgarsvæðisins. Á landsbyggðinni eru embættin einfaldlega smá og þótt að þar náist einhver sparnaður þá eru það ekki verulegar upphæðir. Hér á höfuðborgarsvæðinu eru háu upphæðirnar og það liggur beinast við að líta til þeirra stofnana sem starfræktar eru við Snorrabrautina, þá á ég við ríkislögreglustjóra og lögregluna í Reykjavík. Þar eru stofnanir sem nota vel á fjórða milljarð króna. Það er miklu nærtækara að fara þangað og athuga hvort ekki sé hægt að ná fram, ekki endilega sparnaði en a.m.k. hagræðingu þannig að löggæslan nýtist sem best og ekki sé um tvíverknað að ræða hjá umræddum stofnunum. Ég tel vænlegra að leita þar eftir árangri til að efla löggæsluna í stað þess að fara í sífellu út á landsbyggðina, í þessi litlu embætti. Þótt þar náist einhver sparnaður verður um örfáar krónur að ræða miðað við það sem blasir við á höfuðborgarsvæðinu.