132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Breytt skipan lögreglumála.

[16:00]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með margt í tillögum framkvæmdanefndarinnar sem gerir sér greinilega grein fyrir að hér er um viðkvæmt mál að ræða því að við erum að tala um þjónustu sem tilheyrir nærþjónustu sveitarfélaganna. Það verður auðvitað að hafa í huga mismunandi viðkvæma stöðu sveitarfélaganna en mörg eru það viðkvæm að þau mega ekki við miklu. Mér sýnist framkvæmdanefndin hafa haft það í huga því að hún orðar tillögur sínar með þeim hætti að þær þurfi að vera skýrar og raunhæfar, að taka þurfi breytingarnar í fáum skrefum þannig að gott svigrúm gefist til að meta þær breytingar sem gerðar verða og sömuleiðis að skapa þurfi breiða samstöðu um breytingarnar.

Mér heyrist hæstv. dómsmálaráðherra ætla sér að taka mark á því sem framkvæmdanefndin leggur til. Það er auðvitað afar mikilvægt að kynningarfundirnir sem hæstv. ráðherra nefnir verði skilvirkir og að til þeirra séu boðaðir allir þeir sem þurfa og, eins og hæstv. ráðherra gefur hér yfirlýsingu um, að endanlegar ákvarðanir verði ekki teknar fyrr en þetta samráð hefur átt sér stað. Hér er auðvitað um fyrirmyndarvinnubrögð að ræða, hæstv. ráðherra, það verður að tryggja að þessi aðferð nýtist þá líka út í hörgul og verði ekki bara orðin tóm. Með slíkum breytingum þurfum við auðvitað að gæta að því að við séum að styrkja byggðir landsins, að við séum að fjölga störfum á raunhæfan hátt og af skilningi fyrir sérstöðu svæðanna hvers fyrir sig.

Mér finnst ein mikilvægasta tillagan í tillögum nefndarinnar vera tillaga nr. 8, og tek að því leytinu til undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Það er varðandi það svigrúm sem skapast hjá þeim embættum sem missa frá sér lögregluembættin. Þar er auðvitað verulegt sóknarfæri og nefndin hvetur til þess að hugað verði sérstaklega að því að flytja verkefni (Forseti hringir.) sem hægt sé að gera án viðbótarfjármagns í miklum mæli. Ég hvet bara til þess að þessum vinnubrögðum verði haldið út í hörgul.