132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Breytt skipan lögreglumála.

[16:04]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Bættar samgöngur og bylting í samskiptamöguleikum svo sem fjarskiptum, tölvutækni og tækjabúnaði við löggæslustörf hafa fyrir löngu skapað mikla möguleika á endurskipulagningu lögreglumála í landinu. Markmið þess á auðvitað að vera að efla þjónustu löggæslunnar og styrkja hana. Sú íhaldssemi sem staðið hefur í vegi breytinga í þessa átt er mjög undarleg en er kannski helst sambærileg við þá andstöðu sem er við fækkun og eflingu sveitarfélaga í landinu og með svipuðum hætti við breytingar á prestaköllum. Það kemur reyndar skýrt fram í skýrslunni að þeir sem sömdu hana vildu gjarnan ganga lengra en til er lagt. En kjark og getu hæstv. dómsmálaráðherra til þess hefur greinilega vantað.

Fleira hefur vantað hjá hæstv. dómsmálaráðherra. Það hefur vantað samráð við sveitarstjórnarmenn og heimafólk af svæðunum. Það er alveg greinilegt að nú ætlar hæstv. ráðherra að fara í göngu í kringum landið með niðurstöðu sem búið er að finna, hina pólitísku niðurstöðu, sáttin við sýslumennina o.s.frv. á að verða niðurstaðan. Ég fer fram á að menn ræði við heimamenn í alvöru um þessi mál en ekki bara í einhverju gríni vegna þess að menn hafi náð pólitískri niðurstöðu.

Mér vil líka, og það verða lokaorð mín um málið, að við þessa skipulagsbreytingu verði sýnd ábyrgð gagnvart fólki og byggðarlögum, að staðið verði við loforð um verkefnaflutning til þeirra staða þar sem verkefni eru færð í burtu. Mér finnst hæstv. ráðherra eiga að fá prik fyrir að gera eitthvað og vonandi verða þau skref sem hann leggur nú í til þess að menn nái heildarsamstöðu um þessi mál.