132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Póst- og fjarskiptastofnun.

267. mál
[16:15]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Frumvarp sama efnis var lagt fram á síðasta þingi en varð ekki útrætt.

Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á 13. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Helsta markmiðið með breytingunni er að færa kæruferli vegna ákvarðana Póst- og fjarskiptastofnunar til samgönguráðuneytis í samræmi við almennar reglur stjórnsýslulaga. Lagt er til að úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála verði lögð niður í kjölfarið.

Þegar fyrstu ákvæðin um úrskurðarnefndina voru sett árið 1996 var megintilgangurinn að tryggja sjálfstæði úrskurðaraðilans gagnvart stjórnvöldum, sem voru stærsti eignaraðili þá að hlutabréfum í Landssímanum hf. Reynslan hefur sýnt að það fyrirkomulag að hafa starfandi sérstakar úrskurðarnefndir er heppilegt á sviðum þar sem mikill fjöldi mála er til úrlausnar. Því er ekki til að dreifa varðandi úrskurðarnefnd póst- og fjarskiptamála sem hefur kveðið upp samtals 12 úrskurði á síðustu þremur árum. Þá þykir eðlilegt og í samræmi við almenna þróun innan stjórnsýslunnar að ráðherra og ráðuneyti axli sjálft ábyrgð á úrlausn ágreiningsefna á þessu sérsviði og byggi upp frekari þekkingu innan ráðuneytisins á framkvæmd póst- og fjarskiptamála.

Um leið og úrskurðarvaldið er fært til ráðuneytisins er jafnframt opnað fyrir málskot til dómstóla samkvæmt almennum reglum þannig að stjórnsýslukæra er ekki forsenda málshöfðunar fyrir almennum dómstólum.

Breytingunni á lögunum er ætlað að taka gildi um næstu áramót.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.