132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Póst- og fjarskiptastofnun.

267. mál
[16:19]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel eðlilegt að þessi fyrirspurn komi fram og þykir gott að geta gefið svar við henni.

Það sem hér er verið að tala um og orðalagið í ræðu minni vitnar fyrst og fremst til er að á sínum tíma þegar verið var að úrskurða og þá aðallega í fjarskiptamálum á þeim tíma þegar þessi lög voru sett, þá var, eins og fram kom reyndar einnig í ræðu minni, eign Símans á hendi sama ráðherra sem hefði átt að fara með úrskurðarvaldið ef ekki hefði komið til þessi sérstaka og sjálfstæða úrskurðarnefnd.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er afar mikilvægt að tryggja sjálfstæði úrskurðaraðilans. Það tel ég vera gert fyllilega með því fyrirkomulagi sem hér er gert ráð fyrir. Auk þess er síðan hægt að fara dómstólaleiðina ef deilur verða eftir sem áður og aðilar sætta sig ekki við þann úrskurð sem ráðuneytið kveður upp.