132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Póst- og fjarskiptastofnun.

267. mál
[16:25]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mótmæla því að hér sé um einhverja einföldun að ræða því að núverandi fyrirkomulag er einfalt, það er sjálfstæð nefnd sem hægt er að skjóta málum til ef menn sætta sig ekki við niðurstöður Póst- og fjarskiptastofnunar. Munurinn verður einfaldlega sá að í stað þess að skjóta þeim til þessarar nefndar verður þeim skotið til ráðuneytisins.

Ég geld varhuga við því a.m.k. á þessu stigi að verið sé að færa jafnmikilvægt vald eins og vald á þessu sviði frá sjálfstæðum, óháðum úrskurðaraðila yfir til ráðuneytis og einkanlega í ljósi þeirrar miklu umræðu sem hefur farið fram um fjölmiðlamál og hversu viðkvæm og vandmeðfarin þau eru í íslensku samfélagi og hve oft er stutt í það að menn varpi því fram að um óeðlileg pólitísk afskipti sé að ræða þegar fjölmiðlar eru annars vegar.

Þess vegna held ég að þessi tillaga, sem lætur lítið yfir sér í fyrstu umferð, kunni að reynast hættuleg þegar fram líða stundir. Og á þessu stigi, á meðan ekki koma fram betri sjónarmið eða betri röksemdir en hafa komið fram í þessari umræðu, geld ég mikinn varhuga við því að verið sé að færa úrskurðarvald í málefnum sem tengjast fjölmiðlum og fjarskiptum yfir til samgönguráðuneytisins.