132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Póst- og fjarskiptastofnun.

267. mál
[16:29]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að verða langorður um þetta mál. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort við séum að færa málin í betri farveg með því að leggja niður úrskurðarnefndina. Ég tek eftir því í greinargerðinni að við þá úrskurði sem úrskurðarnefndin hefur fellt hafi verið unað. Það er að mínu viti mikilvægt fyrir okkur sem fáumst við lagasetninguna að gera hana þannig úr garði að við hana sé unað, að menn uni niðurstöðum sem úr málum nást. Því vil ég í þessari stuttu ræðu varpa þeirri spurningu til hæstv. samgönguráðherra hvort það sé ekki eftirsóknarvert þegar mál ganga til úrskurðarnefndar að þau séu faglega unnin, eins og virðist vera í þessu tilviki að menn hafi unað úrskurðinum og ekki leitað lengra með sín mál og þeir 12 úrskurðir sem felldir hafa verið hafi verið niðurstaða sem varð til friðs.

Það er líka rétt að minna á að við höfum undanfarna mánuði og á síðasta ári rætt mikið um ýmislegt sem snýr að fjölmiðlum í landinu og að miklar breytingar eru að verða á þeim vettvangi. Þess vegna tel ég að menn þurfi að skoða þetta mál vandlega í nefndinni.

Ég óska eftir því að fá svör frá hæstv. ráðherra um það hvort ekki sé eftirsóknarvert að fá þessa niðurstöðu og hvort búast megi við því að menn líti frekar á úrskurði ráðuneytisins sem pólitíska úrskurði sem verði kannski frekar til þess að málin haldi áfram í deiluformi.

Í annan stað langar mig til að vita um hvaða fjármuni er að tefla, þ.e. hvað hefur úrskurðarnefndin kostað o.s.frv. Erum við að leita sérstaklega eftir sparnaði í þessu eða eru þetta fyrst og fremst breytingar á málsmeðferð?