132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Póst- og fjarskiptastofnun.

267. mál
[16:32]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að setja á langa og mikla ræðu um þetta mál en þau sjónarmið sem hafa verið dregin fram hér og sá veruleiki að sæmileg sátt hefur ríkt um núverandi fyrirkomulag kallar fram og dregur fram spurningar um nauðsyn þess að breyta því sem sæmileg sátt er um. Það kemur einnig fram í greinargerð með þessu frumvarpi, þ.e. í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, að það sé ekki gert ráð fyrir því að frumvarpið, verði það að lögum, hafi í för með sér aukinn kostnað. Ekki er heldur gert ráð fyrir að það hafi einhvern minni háttar kostnað í för með sér. Það liggur því ekki neitt fyrir, a.m.k. ekki í þeim gögnum sem liggja fyrir þinginu, að þessi breyting sé lögð til vegna þess að hér eigi að hagræða eða spara á nokkurn hátt.

Þá vaknar sú spurning: Hvað er það í núverandi fyrirkomulagi sem er ekki nægilega gott? Það hefur bara alls ekki komið fram í þessari umræðu. Einustu rökin sem hafa komið fram eru þau að ríkið sé búið að selja Símann, þ.e. hlutabréf í Símanum, og af þeim sökum sé eðlilegt að breyta þessu. En það er einnig tekið fram í greinargerðinni að víðast hvar, a.m.k. eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Í flestum ríkjum verður niðurstöðu stjórnvalda (fjarskiptaeftirlitsstofnana) skotið beint til dómstóla eða stjórnsýsludómstóls.“

Hér hefur hins vegar verið það fyrirkomulag að það hefur verið sérstök sjálfstæð úrskurðarnefnd og þaðan hefur verið hægt að fara til dómstóla.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að leggja mat á hver er nákvæmlega besta leiðin en málið lítur þannig út í ljósi þeirra miklu deilna sem fram hafa farið einkum um fjölmiðlamál að verið sé að stinga þarna inn einhvers konar, ég segi nú ekki pólitískum afskiptum en a.m.k. endar málið tímabundið eða alla vega einu sinni á innleið í tilteknu ráðuneyti þar sem pólitískur ráðherra situr hverju sinni. Nú er ég ekki að gera því skóna að hæstv. samgönguráðherra sitji mjög lengi til viðbótar en þar situr væntanlega hverju sinni pólitískt skipaður ráðherra. Ég velti fyrir mér og er heldur að herðast í þeirri skoðun að það kunni að vera hættulegt að fara með mál í þennan farveg, einkanlega vegna þess að það er ekkert í umræðunni sem kallar á það, það hefur engin óánægja komið fram um núverandi fyrirkomulag. Því hljóta menn að spyrja: Hvers vegna er verið að ráðast í þessar breytingar?

Þegar ekki koma fram betri rök en þau sem komu fram í ræðu hæstv. ráðherra og í þessari greinargerð þá er hætta á að viss tortryggni vakni um að ráðuneytið sé af einhverjum ástæðum að taka til sín vald sem það hefur ekki núna. Hér er um mjög viðkvæmt svið að ræða og mun án efa verða miklu viðkvæmara þegar fram líða stundir. Þegar farið verður að ræða aðgengi fjölmiðla að dreifikerfum og endurvarpi og öðru slíku þá mun skipta mjög miklu máli hvar þetta vald liggur. Því má heldur ekki gleyma, enda þótt gerð sé sérstök grein fyrir því í greinargerðinni að þaðan geti menn leitað til dómstóla, að fólk sem stendur í þrætum og deilum hefur ekkert sérstaka ánægju af því að standa í slíku svo mánuðum eða árum skiptir og menn leita ekki bara til dómstóla vegna þess að þeir óttast pólitísk afskipti ráðuneytisins af tiltekinni niðurstöðu.

Því held ég, virðulegi forseti, að þetta sé skref sem menn eigi a.m.k. að taka mjög varlega. Til hvers að efna til óvinafagnaðar út af svona máli þegar hlutirnir eru í lagi? Það er kannski sú spurning sem hæstv. ráðherra verður að svara: Hvers vegna þarf að kalla þetta vald inn í ráðuneytið? Því ekkert hefur í raun og veru komið fram um að núverandi fyrirkomulag sé ekki í lagi. Ég ætla ekki að fullyrða það á þessu stigi að menn séu fyrst og fremst að reyna að tryggja að þeir hafi eitthvað um það að segja hvernig þessi mál þróist í framtíðinni en auðvitað vakna þær spurningar upp þegar rökin eru ekki betri en þessi.

Virðulegi forseti. Það þarf miklu betri rök en þau sem hér koma fram til að réttlæta það að jafnviðkvæmum málum og fjarskiptamál og fjölmiðlamál í framtíðinni verði komið fyrir í sérstakri deild í samgönguráðuneytinu. Ég geld a.m.k. mikinn varhuga við því á þessu stigi.