132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Póst- og fjarskiptastofnun.

267. mál
[16:37]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er ánægjulegt til þess að vita að í hinu háa samgönguráðuneyti skuli málum vera svo vel fyrir komið að starfsmenn þess og ráðherrann sjálfur hæstv. hafa ekkert annað að gera en að reyna að breyta lögum þeim sem hér er verið að reyna að breyta á jafnröklausan hátt og raun ber vitni. Ég hélt, forseti, að í samgönguráðuneytinu væri það einmitt öfugt. Þar glímdu menn við mikil úrlausnarefni til framtíðar, bæði í þeim samgöngum sem hefðbundnastar eru, í vegamálunum, í því að strandsiglingar eru nú niður lagðar og hafa breytt verulega öllum samgöngum á landi, og í þeim samgöngumálum sem eru farin að taka meira og meira rúm bæði ráðuneytisins og þingsins, nefnilega fjarskiptunum. En það er greinilega misskilningur.

Ég verð að taka undir með hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að það vantar rök fyrir því hvers vegna á að gera þessa breytingu. Einu rökin sem fram koma í greinargerðinni, sem fylgir frumvarpinu eða athugasemdunum eins og það heitir í frumvörpum, eru þau að ráðuneytið sé reiðubúið, með leyfi forseta, „til að axla sjálft ábyrgð á úrlausn ágreiningsefna á þessu sérsviði …“ Það er sem sé vilji ráðuneytisins sem allt í einu er í þessum texta farið að taka á sig sjálfstæða mynd, þ.e. að ráðuneytið vilji eitthvað en ekki ráðherrann. Ráðuneytið er samkvæmt skilgreiningu skrifstofa ráðherra og hefur ekki sjálfstæðan vilja. Það ættu nú ráðherrar að fara að temja sér í greinargerðum og framsögu hér að tala fyrir sjálfa sig í eigin nafni en ekki í nafni hlutar sem í raun og veru ekki er til með eigin vilja og eigin dómgreind.

Ráðuneytið blóðlangar til að axla þessa ábyrgð og hver er ástæðan? Jú, rökin og einu rökin sem haldbær eru í þessari greinargerð og þessu máli öllu eru þau að með því mundi, með leyfi forseta, „byggjast upp innan ráðuneytisins frekari þekking en nú er á póst- og fjarskiptamálum.“ Þá kemur nú eiginlega að því að ráðherra hæstv. útskýri fyrir okkur hvað skortir á um þekkingu ráðuneytisins í póst- og fjarskiptamálum, vegna þess að hann hefur a.m.k. sjálfur látið þannig hér í þingsal að sú þekking sé afar glögg, að starfsmenn í ráðuneyti hans, sem er skrifstofa hans, hafi þessa þekkingu, hún sé þar fyrir hendi. Ég lýsi eftir því að ráðherra láti okkur vita hversu vant er um þá þekkingu á póst- og fjarskiptamálum sem hér er lýst.

Ég hef áhyggjur af að sú þekking sé ekki til en ég held að það sé ekki ráðið að búa til sérstök lög um að sú þekking byggist upp með þessum hætti heldur væri þá ráðið að ráðherra hæstv., yfirmaður skrifstofu sinnar, komi þeirri þekkingu á með einhverjum hætti, skipi menn þar til verka þannig að þeir geti vélað um þau mál sem varða póst og fjarskipti.

Það er líka furðulegt að ætla sér með þessum sérstaka hætti að leggja niður það sem vel hefur tekist. Því er lýst, forseti, í greinargerðinni að það hafi einmitt tekist mjög vel til með úrskurðarnefnd póst- og fjarskiptamála. Reynslan af starfi nefndarinnar sé góð, segir hér, og það er einmitt talað um að aðilar mála hafi unað vel við úrskurði nefndarinnar, sem sýnir að þeir treysta nefndinni í þeim úrskurðum sem upp eru kveðnir, og ekki hafa neinir þeirra farið fyrir almenna dómstóla. Á það má einmitt líta þannig að aðilar treysti úrskurði þessarar nefndar, sem sé fagleg og fari að þeim lögum og reglum og beiti því meðalhófi sem hér á best við.

Í staðinn ætlar ráðherra að búa til dómstól úr ráðuneytinu, vísa til ráðuneytisins úrskurðum í þeim málum sem ágreiningur er um. Hann segir að það sé eðlilegt núna vegna þess að ríkið hafi losað sig við Símann. Það er rétt, ríkið hefur losað sig við Símann en hér er um fleira að ræða en fjarskiptamál. Eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson benti á getur verið um að ræða ýmis fjölmiðlamál sem snerta fjölmiðlun meira en hin klassísku fjarskipti. Þá er í fyrsta lagi að minna á að ríkið er nú, og vonandi áfram og alla daga þangað til upp renna nýir tímar, eigandi Ríkisútvarpsins og hafi einhver rök staðið bak við það að skipuð væri sérstök úrskurðarnefnd í póst- og fjarskiptamálum vegna þess að ríkið ætti Símann þá hljóta þau að gilda jafnt um það að ríkið eigi Ríkisútvarpið. Í öðru lagi er að nefna, sem ráðherra gerir af einhverjum ástæðum ekki, að í málaskrá ríkisstjórnarinnar eru boðuð sérstök lög um fjölmiðla. Nú veit ég ekki hvort hæstv. ráðherra hefur kynnt sér þau mál og auðvitað veit enginn neitt um þau lög vegna þess að menntamálaráðherra hæstv. heldur utan um þau eins og krummi í hreiðri um skartgripi sem hann hefur tínt upp af bæjunum umhverfis, og ekki er víst að ráðherrar viti meira um þau en við þingmenn, hvað þá það venjulega fólk sem kann að eiga hagsmuna að gæta í því máli, sem er nú eiginlega allur almenningur.

Þó er til skýrsla, fjölmiðlaskýrslan síðari, sem gefur ofurlitla hugmynd um hvað ætti að vera í þeim lögum. Það varð nokkuð góð samstaða í þeirri nefnd um það og það er alveg augljóst, þannig að við tökum nú út þetta ómerkilega prósentudeilumál, að einn meginþáttur þeirra laga verða íslenskar nýjungar á sviði flutningsréttar og flutningsskyldu. Þau lagaákvæði sem upp af því spretta munu að öllum líkindum snerta mjög Póst- og fjarskiptastofnun og jafnvel koma fyrir þessa úrskurðarnefnd, ef það er ekki þegar búið að leggja hana niður, sem hér er um að ræða. Af þeim ástæðum líka, ef við berum gæfu til að samþykkja slík lög sem ég vona að verði, a.m.k. hvað þennan þátt varðar, þá er óeðlilegt að breyta því skipulagi sem vel hefur gefist áður en einmitt kæmi að þessum nýju lögum þar sem mikilvægt er að allir þessir aðilar í fjölmiðlun og bæði fjölmiðlarnir og dreifiveiturnar geti treyst því að úrskurðirnir séu faglegir og ekki pólitískir á þann hátt að ríkisvaldið eða stjórnvöld, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eins og þau stjórnvöld líta út núna, séu að skipta sér af því hvernig flutningsrétturinn og flutningsskyldan eru og hvernig úthlutanir og fyrirskipanir á þessu sviði fara fram, ekki bara vegna þess að ríkið eigi Ríkisútvarpið — sem ríkið á náttúrlega ekkert í heldur er það þjóðin sem á það en ríkið fer auðvitað með þá eign að nokkru leyti — heldur líka vegna þess að núverandi stjórnvöld hafa hreint ótrúlega sögu í afskiptum sínum, bæði þeim sem tekist hafa og þá ekki síður þeim sem takast áttu, af fjölmiðlun í landinu. Til þess að lægja þær öldur, til þess að skapa til frambúðar sátt um fjölmiðlana í landinu er því einmitt mjög mikilvægt að byggt sé á þeirri reynslu sem fengist hefur af úrskurðarnefndinni um póst- og fjarskiptamál.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson vakti athygli á III. kafla í hinum almennu athugasemdum við frumvarpið. Það er ástæða til þess að íhuga enn frekar þennan kafla. Hann fjallar um framkvæmd í öðrum ríkjum. Nú er það oft svo að við tökum tillit til þess sem gert er í kringum okkur. Það er eðlilegt vegna þess að við erum oft seinni en önnur ríki að koma okkar málum í það horf sem nútíminn krefst. Þó að maður kunni að harma það í sumum efnum þá er það þægilegt í öðrum því að þá höfum við yfirsýn yfir það hvernig hlutirnir eru gerðir annars staðar og hvernig það hefur gengið.

Í almennum athugasemdum ráðherrans sjálfs eða ráðuneytisins, ef hæstv. ráðherra vill frekar hafa það þannig að ráðuneytið hafi skrifað þessa greinargerð, kemur fram að menn hafa allgott yfirlit yfir það hvernig þetta fer fram í öðrum ríkjum. Það er þannig, forseti, að í flestum ríkjum verður niðurstöðu stjórnvalda, þessara fjarskiptaeftirlitsstofnana sem jafngilda hér Póst- og fjarskiptastofnun, skotið annaðhvort beint til dómstóla eða stjórnsýsludómstóls sem ekki er fyrir hendi hér. Upptalningin er svona um það mál: Það er Ítalía, Sviss, Spánn, Finnland, Lúxemborg, Ungverjaland, Kýpur, Holland, Svíþjóð, Þýskaland, Austurríki og Tékkland. Þetta eru Evrópuríkin.

„Þetta er svipað í Portúgal, Frakklandi og Póllandi,“ — stendur hér, með leyfi forseta — „en þar ræðst það af eðli ákvarðana hvort þeim verður skotið til stjórnsýsludómstóls eða almennra dómstóla. Í Danmörku verður ákvörðunum eftirlitsstofnunar skotið til stjórnarnefndar um kvartanir vegna fjarskiptamála ...“

Það er svipað og hér viðgengst. En eingöngu í Noregi, aðeins í Noregi, þarf að skjóta ákvörðunum eftirlitsstofnunar til æðra stjórnvalds, til ráðuneytis, væntanlega samgönguráðuneytisins eða fjarskiptaráðuneytisins í Noregi líkt því sem hér er lagt til. Það er því aðeins eitt dæmi í allri Evrópu um að tekin sé upp skipan eins og sú sem ráðuneytið hefur beðið hæstv. samgönguráðherra að flytja á þinginu af þeim ástæðum að ráðuneytið blóðlangar til þess að taka þessar ákvarðanir og telur að í sér muni byggjast upp þekking sem sé ráðuneytinu ákaflega mikilvæg á þessu sviði og ekki með neinum öðrum hætti.

Ég hlýt líka að vekja athygli á því, forseti, að um leið og ráðuneytið segist vera reiðubúið til þess að axla sjálft ábyrgð á úrlausn ágreiningsefna á þessu sérsviði sem það hefur nú falið ráðherra sínum, hæstv. samgönguráðherra, að koma á hér þá kvartar það yfir því að úrskurðarnefndin hafi ekki með höndum hlutverk við almenna stefnumörkun og að úrskurðarnefndin hafi ekki stöðu til að fylgja úrskurðum sínum eftir.

Nú er rétt að hæstv. ráðherra spyrji ráðuneytið að því hvað átt sé við með þessum orðum í greinargerðinni. Ég sé ekki betur en að hér sé átt við að það hlutverk skrifstofu ráðherra að móta stefnu undir hans stjórn — í öðrum ráðuneytum, fyrirgefið, en í samgönguráðuneyti þar sem þessu virðist vera öfugt farið — og ráðuneytið á auðvitað að fylgja eftir þeim úrskurðum sem teknir eru. En ég sé engan sérstakan mun á því hvar úrskurðað er. Ráðuneytið hlýtur, nema eitthvað skrýtið sé við stjórnun þess, að hafa mannafla og þekkingu til þess að fylgja eftir úrskurðum sem úrskurðarnefnd póst- og fjarskiptamála gefur út. Ég held að það hljóti að vera þannig að hæstvirt ráðuneyti, eða a.m.k. hið háa ráðuneyti, fylgist með úrskurðum úrskurðarnefndar póst- og fjarskiptamála. Ég veit a.m.k. að úrskurðarnefndin hefur á átta árum kveðið upp samtals tólf úrskurði og hefur haft nokkurt eftirlit með því hvernig þeim úrskurðum hefur verið tekið.

Þessi rök fyrir breytingunum eru því — það má orða það kurteislega — lítils virði. Þess vegna vakna auðvitað spurningar um hvað hæstv. ráðherra er að gera hér á þingi með þetta plagg frá ráðuneytinu, til hvers hann er að flytja þetta frumvarp fram yfir allt það annað sem maður ímyndar sér að yfirmaður í samgönguráðuneytinu ætti að gera. Í ljósi reynslunnar og sögunnar af bæði hæstv. ráðherra og félögum hans í hæstv. ríkisstjórn að undanförnu þá kynnu að vakna hjá fjölmiðlum og fjarskiptafyrirtækjum spurningar um hvort það sé til þess að hægt sé að hafa betra pólitískt taumhald á þessu sviði í framtíðinni en verið hefur. Það er sú spurning sem hæstv. samgönguráðherra ætti að forðast í þeirri stöðu sem uppi er eftir þessa sögu í fjarskiptamálunum, í fjölmiðlamálunum og með þá lagasetningu fram undan sem ég minntist áður á.

Það eru mín ráð að þetta frumvarp verði nú tekið til baka og að úrskurðarnefnd póst- og fjarskiptamála fái að vinna a.m.k. nokkur ár í viðbót á þann sama góða veg sem hún hefur gert hingað til í átta ár og lýst er í greinargerðinni og að hæstv. samgönguráðherra sé ekki að eyða tíma þingsins í jafnvitlaust mál og hér er um að ræða.