132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Póst- og fjarskiptastofnun.

267. mál
[17:07]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Við hlýddum á mjög sérkennilega ræðu hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni sem kvartar undan því að málið hafi ekki verið kynnt nægjanlega. Mér sýnist af ræðu hv. þingmanns að það sé rétt að það þurfi að kynna þetta mál betur fyrir honum, hv. þingmanni. En ræður hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar báru þess vott að hér er um æfingu að ræða, sýnist mér, í umræðum um útvarpsmálefni. Ég er alveg tilbúinn til að efna til þeirrar æfingar ef það auðveldar hv. þingmönnum tilveruna hér, en mér fannst þeir vera að tala um allt annað en það sem frumvarpið snýst um. Það er fjarri öllu lagi að hér sé verið að efna til ófriðar, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hélt fram. — Hann er kominn til skjalanna aftur til að ræða samgöngumál, hann var færður af þeim vettvangi eftir síðustu kosningar. — Það er fjarri öllu lagi. Það er ekki verið að efna til nokkurs ófriðar.

En vegna þess sem fram kom hjá hv. þingmönnum liggur það alveg fyrir, samkvæmt 1. gr. frumvarpsins, að um málskot til dómstóla fer eftir almennum reglum. Ef úrskurður og ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar eru kærðar þá eru þær samkvæmt frumvarpinu kærðar til samgönguráðuneytisins sem vel og merkja þýðir til samgönguráðherra. Ef hv. þm. Mörður Árnason hefur lært önnur fræði á sínum tíma í fjármálaráðuneytinu þá er það svo að ráðherra ber að sjálfsögðu ábyrgð á ráðuneytinu. Ef svo hefur ekki verið í hans tíð þá er það mjög sérstakt, en hvað um það. Það er ekki rétt að hafa fleiri orð um það.

Það liggur alveg fyrir að um málskotsrétt er að ræða til dómstóla ef úrskurður er felldur sem er kærður til ráðuneytisins. Ég vil aðeins nefna, af því að mér fannst gæta nokkurs misskilnings hjá hv. þingmönnum áðan, að það er ekki samræmt fyrirkomulag á þessu í Evrópu. Eins og fram kom hjá hv. þm. Merði Árnasyni sérstaklega þá er það fyrirkomulag viðhaft í Noregi sem við erum að leggja til en í langflestum ríkjum er fyrirkomulagið á þann veg að niðurstöðum stjórnvalda, þ.e. fjarskiptaeftirlitsstofnana, er skotið beint til dómstóla. Það er í flestum tilvikum þannig. Við gerum hins vegar ráð fyrir fyrirkomulagi sem gildir um lang-, langflestar stofnanir á sviði stjórnsýslu hjá okkur að stjórnsýsluákvörðunum stofnana, og það er í góðu samræmi við stjórnsýslulöggjöf okkar, sem við höfum verið að þróa, sé hægt að skjóta til úrskurðar ráðherra og það er einmitt það sem verið er að gera.

Það kom m.a. fram hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að það hefur ekki verið mikill ágreiningur um úrskurði, og það er alveg rétt, en með þessu frumvarpi erum við að einfalda hlutina. Í okkar fámenna þjóðfélagi er það af hinu góða að einfalda hlutina. Í þessu tilviki erum við, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, m.a. að gera það á þann hátt að innan ráðuneytisins sé að jafnaði byggð upp sem mest þekking á sviði póst- og fjarskiptamálefna. Sú þekking er býsna mikil eins og eðlilegt er því við höfum á vettvangi ráðuneytisins unnið að gerð margvíslegra frumvarpa á sviði póst- og fjarskiptamála. Það er mikil þekking þar inni og við teljum að það sé heppilegt að nýta þá þekkingu til þess m.a. að geta brugðist við kærum með því að takast á hendur að úrskurða um þær. Eins og fram kemur í mati fjármálaráðuneytisins er ekki gert ráð fyrir auknum útgjöldum. Við gerum ekki ráð fyrir því vegna þessa frumvarps en það kann að vera að í tímans rás gæti af þessu orðið einhver sparnaður þó að það sé ekki megintilgangur með frumvarpinu. Við erum einungis að færa þetta í það far sem á við í langflestum og öllum málefnum stofnana á vettvangi samgönguráðuneytisins. Við úrskurðum ef ákvarðanir Vegagerðar eru kærðar eða annarra stofnana á vettvangi ráðuneytisins og undan því verður ekki vikist. Þetta er partur af okkar stjórnsýslu og ég vil segja stjórnsýsluhefð. Ég held að þetta fyrirkomulag, sem hefur verið að þróast í gegnum tíðina, sé af hinu góða og þess vegna mæli ég fyrir þessu frumvarpi sem er stjórnarfrumvarp og á ekki neitt skylt við frumvarp eða væntanlega löggjöf um fjölmiðla. Samgönguráðuneytið fer ekki með málefni fjölmiðla. Við fjöllum fyrst og fremst um fjarskiptamálefnin en fjölmiðlamálefnin eru á allt öðrum vettvangi.

Ég vil leggja á það áherslu við hv. þingmenn að þeir skapi ekki tortryggni gagnvart þessu frumvarpi með því að draga inn umræðu um hugsanlegar breytingar á löggjöf um fjölmiðla. Ég vil nefna það alveg sérstaklega. Það er sérstakt viðfangsefni, mjög mikilvægt viðfangsefni og ég skil það mætavel að hv. þingmenn séu vel á verði þegar verið er að fjalla um þau mál. Ég vil ítreka að hér er ekki verið að efna til þess að samgönguráðuneytið, ráðuneyti fjarskiptamálefna, komi að því að úrskurða um nokkur af fjölmiðlamálefnunum.

Ég vona að hv. þingmenn fái tækifæri til þess að fara yfir þetta í hv. samgöngunefnd og að hægt verði að afgreiða þetta ágæta mál í gegnum þingið. Það gæti orðið liður í því að bæta og treysta stjórnsýslu í landinu.