132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Póst- og fjarskiptastofnun.

267. mál
[17:15]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta var merkileg ræða eins og hæstv. samgönguráðherra er auðvitað vanur að halda hér á þinginu. Þingheimur hlustar og veit ekki hvað hann á að taka til bragðs þegar ráðherra talar því að þvílík er röksnilldin og efnismeðferðin hjá ráðherranum.

Til dæmis að taka er ekki hægt að komast öllu hærra í ræðumennsku en hæstv. samgönguráðherra gerði þegar hann lýsti lítilmótleik hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, að hann skuli dirfast að taka þátt í umræðu um samgöngumálin. Ráðherrann hefur sem sé upplýsingar um það, sem ég hef ekki, að Lúðvík hafi verið sérstaklega degraderaður, eins og það heitir á fínum kanselístíl undir erlendum áhrifum, þannig að hann megi í raun og veru ekki taka til máls um samgöngumál fyrir hönd Samfylkingarinnar. (Samgrh.: Mín vegna má hann það.) Ráðherranum til upplýsingar, af því að hann segir hér að hann megi það sín vegna, þá erum það við samfylkingarmenn sjálfir sem skipum mönnum til verka á þinginu en ekki ráðherrann og hvað þá ráðuneytið, skrifstofa ráðherra.

Næsta mál sem ég þarf að ræða við ráðherrann, af því að hann minntist á veru mína í fjármálaráðuneytinu og það má segja að hafi hann komist hátt þegar hann lýsti niðurlægingu hv. þm.Lúðvíks Bergvinssonar þá sló hann eiginlega sjálfan sig út þegar hann fann það út að Mörður Árnason hefði líka starfað í ráðuneyti og kýldi þann ágæta þingmann bara kaldan hérna úr ræðustóli. Það er auðvitað erfitt að standa upp úr slíkri eymd sem ráðherrann hefur stofnað til í sinni góðu ræðu. Það sem ég verð að segja við ráðherrann vegna orðalagsins í þessu frumvarpi og þó einkum í athugasemdum við það er það sem ég hygg að standi í stjórnarskrá og við ættum auðvitað báðir að kunna utan að, að ráðuneytið sé skrifstofa ráðherra, ráðuneytið hafi sem sé ekki sjálfstæðan vilja eða sé með einhverjum hætti persóna í nokkrum skilningi nema sem framlenging á ráðherravaldinu. Þess vegna er eðlilegt að ráðherra feli sig ekki á bak við ráðuneyti sitt, hvorki þegar hann talar í stólnum, hversu þróttmikill ræðumaður sem hann kann að vera, —

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna hv. þingmann um að ávarpa forseta en ekki einstaka ráðherra.)

Já, ég skal hlýða því en það er sjaldan sem ég fer út af þeirri línu, forseti — né þegar hann er að skrifa greinargerðir við frumvörp sín, hæstv. ráðherra, eða taka við slíkum greinargerðum frá starfsmönnum sínum. Þannig að við ljúkum nú þessum þætti.

Þá er að fara aftur í hinn efnislega þátt málsins og þar verður því miður að segjast að hæstv. samgönguráðherra hefur ekki fært nokkur þau rök sem gild geta talist fyrir þessu frumvarpi á þessum tíma nema einhvers konar lýsingu á löngunum ráðuneytisstarfsmanna eða sjálfs sín um það að taka til sín það vald sem hér um ræðir, þetta úrskurðarvald.

Af hverju var þetta gert svona á sínum tíma? Því er lýst í greinargerðinni. Það er nefnilega gott við þetta plagg, forseti, að greinargerðin er að mörgu leyti ágæt, skýr efnislega. Megintilgangurinn var sá, með leyfi forseta, „að tryggja sjálfstæði úrskurðaraðilans gagnvart stjórnvöldum“. Svo heldur þetta áfram þannig að þau áttu þá Landssímann hf. eða mest af honum.

Ég vakti athygli á því án þess að hæstv. ráðherra svaraði því nokkru orði að enn væri það þannig, sem betur fer, að sömu stjórnvöld ættu allt Ríkisútvarpið eða færu með málefni þess fyrir hönd þjóðarinnar. Það er þannig að fjölmiðlarnir, sem hæstv. ráðherra vill ekki ræða hér og telur eiga að geyma það þangað til síðar, koma óvart Póst- og fjarskiptastofnun ansi mikið við og fjarskiptamálunum.

Nú skil ég það auðvitað að ráðherra hefur ekki mátt vera að því í sínu annasama ráðuneyti að kynna sér fjölmiðlaskýrsluna hina nýju en í henni er talað um í sambandi við þá eftirlitsstofnun sem á að koma á fót til að fylgjast með fjölmiðlalögum og framkvæmd þeirra í framtíðinni, hvernig sem þau líta út, að hægt sé að fara tvær leiðir í því efni: Annars vegar þá leið að stofna sérstaka fjölmiðlastofnun og ef ég man rétt eru nefndarmenn fjölmiðlanefndar ekki mjög hrifnir af þeirri leið af þeim sökum að hún gæti þróast þannig að hún yrði einhvers konar stóri bróðir en það væri ímyndarlega slæmt fyrir stjórnvöld á Íslandi að hafa þann háttinn á. Þeir mæltu, ef ég man rétt, frekar með því að reyna að skipta upp því eftirliti og öðrum stjórnvaldsskyldum sem hugsanlega fælust í þessum lögum og þeirri skipan sem þau kæmu á, m.a. með því að fela Póst- og fjarskiptastofnun, sem við erum að ræða um, forseti, að annast ákveðna þætti þessa máls.

Sá þáttur fjölmiðlamálsins sem ég hef mestan áhuga á og tel brýnastan, nefnilega flutningsrétt og flutningsskyldu, sem ég mundi skýra betur ef ég hefði tíma til, en varðar auðvitað annars vegar fjölmiðlana og hins vegar dreifiveiturnar, er einmitt það svið sem Póst- og fjarskiptastofnun mundi sennilega verða hvað virkust í að skipta sér af. Þess vegna gengur það ekki upp hjá hæstv. samgönguráðherra að neita að ræða fjölmiðlamálið. Það er í gangi umræða um þau mál. Hún er í gangi vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra, flokkssystir hæstv. samgönguráðherra og situr með honum í ríkisstjórn, lét búa til þessa fjölmiðlaskýrslu þar sem, ef allt væri í lagi, má væntanlega lesa sér til um það nokkurn veginn hvernig lögin verða. Í þessari fjölmiðlaskýrslu er lagt til öðrum þræði a.m.k., það er bent á það sem annan kost af tveimur, að Póst- og fjarskiptastofnun fjalli um fjölmiðlamálið, um flutningsrétt og flutningsskyldu og fleiri mál sem koma fjölmiðlunum við. Þess vegna er það enn þá í fullu gildi sem segir í athugasemdunum að það þurfi að tryggja sjálfstæði úrskurðaraðilans alveg sérstaklega gagnvart stjórnvöldum í þessu efni. Og hafi hæstv. samgönguráðherra verið á landinu undanfarin tvö ár t.d. þá ætti hann að vita hvernig háttað er um traustið á milli fjölmiðlanna í landinu annars vegar og stjórnvalda hins vegar. Við skulum vona að það ástand lagist á næstu árum en meðan því er háttað eins og nú er þá er ákaflega óvarlegt að afnema þá skipan sem sjálfur hæstv. samgönguráðherra lýsir yfir í athugasemdum sínum að hafi gengið mjög vel og koma á annarri skipan sem strax vekur tortryggni við 1. umr. um þetta frumvarp í þingsalnum. Þess vegna segi ég: Er ekki komið nóg af því, eigum við ekki að reyna að halda fast utan um þó það sem vel hefur gengið? Eitt af því sem vel hefur gengið í fjarskiptamálunum er úrskurðarnefnd póst- og fjarskiptamála.

Það eru engin haldbær rök fyrir því, þannig að ég endi nú þar sem ég byrjaði, að það beri að leggja niður þessa úrskurðarnefnd sem allir bera traust til og hefur skilað góðum úrskurðum vegna þess að ráðuneytið, vegna þess að skrifstofa ráðherra, starfsmenn ráðherra, lýsa því yfir að þeir vilji fá einhver tiltekin verkefni. Það eru engin rök. Það eru heldur ekki rök að það sé ekki næg þekking á þessum málum innan samgönguráðuneytisins þó að það séu í sjálfu sér athyglisverðar og fróðlegar upplýsingar eftir margra ára stjórn hæstv. samgönguráðherra í þessum málaflokki. Það eru engin rök. Ef ráðherra vill, sem honum er auðvitað skylt, efla þannig þekkingu í ráðuneyti sínu, hæstv. ráðherra, að hún sé fullnægjandi á sviði póst- og fjarskiptamála þá á hann að standa í því sjálfur og ekki að leggja niður aðrar stofnanir til að sú þekking geti aukist. Ég endurtek þá ósk mína til ráðherrans að hann taki þetta frumvarp aftur, losi okkur við klandur og vesen og eyði fyrir fram þeirri tortryggni sem eðlilegt er að skapast um órökstutt frumvarp af þessu tagi.